140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst langsamlega eðlilegast að þeir sem eru á móti inngöngu í Evrópusambandið séu þá á móti því að taka við þessum styrkjum. Eins og ég hef lýst finnst mér ekki mjög geðfelld tilhugsun að taka við styrkjum frá aðila sem við erum að semja við sem er í harðri hagsmunabaráttu við okkur á ýmsum sviðum.

Varðandi þetta mál í heild sinni hefði að mínu viti verið eðlilegast, og það sýnir að verklagið og vinnulagið hjá ríkisstjórninni er oft og tíðum afar brenglað, að í stað þess að undirrita fyrst rammasamning á milli Íslands og Evrópusambandsins um þetta mál hefðu menn fyrst komið með þingsályktunartillöguna inn í þingið og þingið veitt ríkisstjórninni heimild til að gera slíkan samning — (JBjarn: Eða hafnað.) eða hafnað sem hefði náttúrlega verið langbest — og þá hefðu menn getað gert þennan rammasamning, síðan kæmi frumvarp í kjölfarið og eftir að frumvarpið lægi fyrir hefðu menn getað komið fram með einstök verkefni í fjárlagagerðina.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jón Bjarnason kallar fram í, á einhverjum tímapunkti hefði hinn nýi meiri hluti sem ég held að sé orðinn í dag fyrir því að hætta þessum aðildarviðræðum hugsanlega stöðvað þetta ferli. Það er enn einn hringlandahátturinn og vandræðagangurinn hjá ríkisstjórninni að byrja á því að gera rammasamninginn, koma síðan með bæði þingsályktunartillögu og frumvarp og ræða svo núna frumvarpið sem er endastöðin eftir að vera búin að samþykkja verkefni á grundvelli þessa alls. Það er ekki stuðningur við þetta mál í samfélaginu og ég held að það hafi verið að skýrast á síðustu dögum að við það er heldur ekki stuðningur í þinginu. Þess vegna eigum við að hafna þessum IPA-styrkjum og draga aðildarviðræðurnar til baka.