141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þetta með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og er einmitt það sem ég hef reynt að ítreka í máli mínu í dag um þetta mál, að ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétt. Ég er að minnsta kosti sannfærður um að sú leið sem farin er hér, að skilja á milli, skilja búfræðsluna eftir og þegar litið er til umsagnar fjárlagaskrifstofunnar að þar muni hugsanlega vanta fjármagn og annað í þeim dúr og að því sé ekki svarað heldur geymt til seinni tíma, geti haft alvarlegar afleiðingar.

Mér finnst frumvarpið því ekki svara öllum spurningum og ég er efins um þær leiðir sem hér eru farnar. Ég nefni bara sem dæmi að við erum að kalla eftir því að margar starfsmenntagreinar vaxi og sumar þeirra eru meira að segja ekki til. Ég nefndi til dæmis að á sviði matvælafræði eru kjötiðnaðarmenn allt of fáir, það er ekki til grein um slátrara eða slík störf. Á Suðurlandi hefur þetta verið heilmikið rætt. Þar hefur verið stofnað háskólafélag sem hefur velt fyrir sér hvort taka mætti hluta af þessum greinum inn í núverandi fjölbrautaskóla og nýta fyrirtækin sem starfskennslustaði. Fyrirtækin hafi verið jákvæð fyrir því. Í beinu framhaldi af þeirri menntun gæti fólk farið inn á háskólasviðið. Fólk sem hefði starfað í þessum greinum kæmi inn og mundi klára framhaldsskólanámið og mundi síðan vilja halda áfram í háskólanámi, í fjarnámi eða slíku, og halda þessari tengingu við atvinnulífið.

Ég óttast að ef menn taka svona skref þá skilji þeir fullmikið þarna á milli. Ég held að það byggist á misskilningi, ég held að þessi tengsl séu nauðsynleg. Ég tek auðvitað undir að háskólarnir verða að hafa akademískt sjálfstæði til að stunda meðal annars grunnrannsóknir sem hafa ekkert með atvinnulífið að gera, það er mikilvægt, en þeir verða líka að taka mið af því samfélagi sem þeir búa í. Ég hef þess vegna verið að hvetja til (Forseti hringir.) þess að háskólarnir taki upp (Forseti hringir.) til að mynda kennslu í greinum sem tengjast olíuleit, olíuvinnslu og öðru slíku sem verður vonandi vaxandi atvinnugrein á Íslandi.