141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni má skipta meginefni frumvarpsins í tvo eða þrjá þætti. Annars vegar er um að ræða að samræma lagaumhverfi opinberra háskóla. Þar undir fellur afnám laga um búnaðarfræðslu þannig að Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum falla undir lögin um opinbera háskóla. Það má segja að það sé kannski rótin að því að frumvarpið er flutt, að samræma löggjöf að þessu leyti. En það er fleira í frumvarpinu sem ástæða er til að ræða. Ég mun koma nánar inn á stöðu landbúnaðarskólanna á eftir en það eru aðrir þættir sem hafa fengið minni athygli í umræðunni sem ástæða er til að fara nokkrum orðum um.

Þar er í fyrsta lagi verið að fjalla um lögfestingu á samstarfsneti opinberra háskóla, svokölluðu háskólaneti, til þess að efla og formgera samstarf þessara skóla og má segja að lagabreytingin sé þá til að styrkja stöðu þess samstarfs sem fyrir hendi er í dag og veiti henni aukið gildi. Í öðru lagi er verið að fjalla um tiltölulega sértækt mál um heimild til þess að taka umsýslu- og afgreiðslugjald af nemendum með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, ég kem nánar inn á það á eftir. Í þriðja lagi, þriðja almenna atriðið lýtur ekki að landbúnaðarskólunum sérstaklega heldur hefur það almenna þýðingu fyrir alla skóla sem flokkast undir skilgreininguna opinber háskóli, þ.e. að aðlaga tiltekin ákvæði laga um opinbera háskóla að hinum almennari háskólalögum. Það er svolítið flókið, annars vegar er um að ræða almenna löggjöf um háskóla, svo er sérstök almenn löggjöf um opinbera háskóla og það er það sem við erum að tala um hér, að færa þá löggjöf sem snýr að hæfisskilyrðum starfsmanna háskóla í lögum um opinbera háskóla til hinnar almennu reglu. Það er út af fyrir sig jákvætt.

Ef ég fjalla aðeins nánar um þessa mismunandi þætti held ég að það blasi við að aukið samstarf opinberra háskóla og raunar allra háskóla í landinu er af hinu góða. Það skref sem stigið er í frumvarpinu, að formgera þetta samband og samstarfsnet frekar en nú er, er auðvitað jákvætt og ekkert nema gott um það að segja. Auðvitað skiptir líka máli að staðinn sé vörður um sjálfstæði hinna mismunandi stofnana á þessu sviði en enginn getur með nokkru móti lagst gegn því að samstarf þeirra verði eflt og sett í formlegri búning en nú er, með því má bæði stuðla að aukinni hagkvæmni og afleiðingin ætti líka að geta verið aukin gæði eða bættur árangur í starfinu. Þarna er því um að ræða atriði í frumvarpinu sem tvímælalaust er jákvætt og ástæða til að taka undir.

Annað atriði sem einnig er almenns eðlis snýr að umsýslu- og afgreiðslugjaldi. Skólagjöld eða slík gjöld hafa auðvitað verið umdeild í sambandi við starfsemi hinna opinberu háskóla. Hér er ekki um að ræða neitt skref í þá átt. Sú gjaldtaka sem hér er fjallað um er annars eðlis þannig að ekki er hægt að líta svo á að hér sé um skólagjöld að ræða heldur sérstök afgreiðslu- og umsýslugjöld. Á allra síðustu árum hefur það verið nokkuð áberandi að umsóknir berast frá framandi löndum um skólavist í þeim háskólum sem undir þessa löggjöf heyra í miklum mæli og hafa vaknað grunsemdir um að tilgangur umsóknanna standi í meiri tengslum við von fólks um að fá landvistar- eða dvalarleyfi hér en við skólavistina sem slíka. Hin einstaklingsbundnu tilvik eru auðvitað ólík en þegar það gerist, eins og getið er um í gögnum málsins, að hundruð umsókna koma allt í einu frá einstökum Afríkulöndum er ljóst að þar er eitthvað á ferðinni sem ástæða er til þess að gefa gaum.

Komið hefur fram að umsýsla og afgreiðsla þessara umsókna veldur töluverðum umsvifum í skólunum. Ljóst er að niðurstaða þeirra athugana sem fram hafa farið hefur verið á þá leið að mjög mikið af þeim umsóknum sem þarna um ræðir uppfylla ekki skilyrði. Þarna hefur því töluvert mikil vinna farið í súginn í stjórnsýslu þessara skóla. Í ljósi þess að þá sé unnt að krefjast ákveðinna gjalda af þeim sem sækja um með þessum hætti held ég að ég verði að styðja tillögu frumvarpsins um að komið verði á svokölluðum umsýslu- og afgreiðslugjöldum af nemendum sem eru með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins. Reyndar er talað um undanþágu fyrir Grænland og Færeyjar þar sem um sérstakt og gott samband milli ríkjanna er að ræða.

Ég held að sú breyting sé af hinu góða og ég álít að jafnvel þótt gjaldtaka af þessu tagi sé tekin upp, hugsanlega til að stemma stigu við miklum fjölda — þá er kannski um að ræða mörg hundruð umsóknir á ári sem eru ef til vill frekar til þess ætlaðar að stuðla að því að fólk fái dvalarleyfi en að það hafi raunverulega áhuga á því að komast í viðkomandi nám — og búinn er til örlítill þröskuldur, ekkert óskaplega hár, í þessu sambandi held ég að það verði auðveldara fyrir skólana að sigta þá út sem raunverulega hafa hug á að stunda nám í þessum skólum og það verði þá hugsanlega hægt að sinna þeim betur. Það er auðvitað jákvætt fyrir þá skóla sem hér um ræðir, opinberu skólana í landinu, sem og aðra, að fá nemendur víða að. Ég held að það sé bara fallið til þess að auðga starfið í þessum skólum, auðga samfélagið, að fá erlenda stúdenta hingað til þess að stunda nám, hvort sem þeir koma frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins eða annars staðar frá. Það er eðlilegt og sjálfsagt að dyr íslenskra háskóla séu opnar gagnvart umsækjendum frá sem flestum löndum en með tiltölulega lítilli og hógværri aðgerð af þessu tagi skapast hugsanlega möguleikar á að vinsa frekar þá út sem hafa raunverulega áhuga á náminu og skilja þá frá sem ætla ef til vill að fara einhverja hjáleið til þess að komast inn í landið undir þeim kringumstæðum að þeir fullnægja ekki öðrum lagaskilyrðum um dvalarleyfi, búsetuleyfi eða slík leyfi. Það er því ástæða til að styðja það atriði.

Þriðja breytingin sem ég hef gert hér að umtalsefni snýr að menntunarkröfum og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Lesa má út úr texta frumvarpsins að þarna sé, eins og í almennum lögum um háskóla, gert ráð fyrir því að það sé meginregla að þeir sem ráðnir eru í fastar akademískar stöður við þessa skóla hafi lokið doktorsnámi eða hafi með sambærilegum hætti sýnt fram á færni sína og þekkingu á þeim viðfangsefnum sem þeir fjalla um. Það er mikilvægt að ekki sé gerð ótvíræð krafa um doktorspróf vegna þess að eins og hv. þingmenn þekkja eru einstakar prófgráður langt frá því að vera algildur mælikvarði á hæfileika manna til þess að gegna stöðum, hvort sem er í háskólaumhverfinu eða annars staðar. En alla vega er gert ráð fyrir því að þeir sem ráðnir eru í fastar akademískar stöður á vegum opinberu háskólanna hafi lokið doktorsprófi eða uppfylli hin ströngu, faglegu og akademísku skilyrði með öðrum hætti, sem er bæði nauðsynlegt og mikilvægt.

Í síðari hluta ræðu minnar mun ég fjalla um þann þátt sem snýr að landbúnaðarskólunum sem er það atriði frumvarpsins sem sennilega hefur valdið þingmönnum mestum áhyggjum hér, ekki síst vegna þess að athugasemdir hafa komið úr landbúnaðargeiranum við þau ákvæði. Ég hef hér rakið að í sjálfu sér sé það ekki óeðlilegt út frá öllum grundvallarsjónarmiðum að um háskólastarfsemi landbúnaðarskólanna gildi lög um opinbera háskóla með sama hætti og almenn löggjöf gildir þar um. Út frá öllum prinsippsjónarmiðum er það eðlilegt. Ég ítreka hins vegar það sem ég kom inn á fyrr í máli mínu í andsvörum við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að það vekur áhyggjur hjá mér að með þeim breytingum sem hér er mælt fyrir og ákvörðunum sem teknar hafa verið fyrr á árum sé hugsanlega verið annars vegar að stíga skref í þá átt að draga úr tengslum þessara skóla við atvinnugreinina og hins vegar að með því að sníða af sérákvæði í lögum sem snúa sérstaklega að þessum skólum sé mögulega verið að draga úr því tilliti sem taka þarf til sérstöðu þessara skóla. Ég hef þess vegna haft nokkuð blendna afstöðu til þessara ákvæða. Þó að ég hafi í upphafi verið sammála því að eðlilegt væri að þarna væri um að ræða samræmda löggjöf velti ég því mjög fyrir mér, eins og þingmenn sem hér hafa áður talað, að hugsanlega sé verið að stíga enn eitt skrefið sem geti gert það að verkum að staða þessara skóla verði erfiðari í framtíðinni en ella.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá fleiri þingmönnum að starfsemin, hvort sem er í Landbúnaðarskóla Íslands eða Hólaskóla, er gríðarlega mikilvæg, ekki bara fyrir íslenskan landbúnað og ekki bara fyrir þau landsvæði sem þarna ræðir um sérstaklega, heldur fyrir samfélagið almennt. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem matvælaframleiðsluland að staðið sé að kennslu sem snýr að landbúnaði með öflugum hætti. Það er líka mikilvægt að staðið sé vel að rannsóknum sem tengjast þessu sviði. Þessir skólar sinna einmitt því sviði sem ekki er svo mikið sinnt af öðrum skólum í landinu. Það er mikilvægt vegna þess að sú þróun mála sem verið hefur hér á landi á háskólastiginu á undanförnum árum hefur verið gagnrýnd mikið og sagt að of mikið sé um að fólk fari inn á sömu svið. Það er enginn skortur á námsleiðum í lögfræði eða viðskiptafræði eða slíkum greinum en þegar kemur að námi sem hefur enn nánari tengsl við atvinnulífið og frumframleiðslugreinarnar í landinu er framboðið ekki með sama hætti. Ég held því að það sé gríðarlega mikilvægt að ekki sé dregið úr mikilvægi þessara skóla eða stöðu þeirra raskað á annan hátt og að tryggt sé að tengsl þeirra við atvinnugreinina verði áfram öflug. Þó að ekki verði snúið frá þeirri breytingu sem hér var gerð fyrir fimm, sex árum þegar landbúnaðarskólarnir voru fluttir frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis — það er enginn að tala um að snúa klukkunni við hvað það varðar — þá verður að passa upp á að staða þessara skóla veikist ekki heldur eflist. Ég held að öllum sé ljóst að þarna eru mikilvæg sóknarfæri fyrir Íslendinga að nýta sérstöðu íslensks landbúnaðar til þess að efla matvælaframleiðslu, útflutningsstarfsemi á matvælum, tengsl við ferðaþjónustu og annað þess háttar sem skiptir verulegu máli fyrir sóknarmöguleika okkar efnahagslífs á næstu árum, ekki síst í hinum dreifðari byggðum þar sem mikilvægt er að efla starfsemi og fjölga atvinnumöguleikum.

Hæstv. forseti. Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að koma örstutt inn á eitt atriði sem nokkuð er fjallað um í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Þar er allnokkur umfjöllun um það hvernig tryggja megi, eins og það er orðað í nefndarálitinu, viðveru menntafólks á Íslandi eftir útskrift og koma í veg fyrir að það flytji til útlanda eftir nám og skapa hvata til að það flytji aftur til Íslands eftir nám erlendis. Allt eru það áhugaverðar vangaveltur þó að þær séu raunar utan við meginefni frumvarpsins, eins og meiri hlutinn tekur reyndar fram. Af því tilefni vildi ég geta þess að menn geta auðvitað búið til einhverjar lagareglur sem eru til þess fallnar eða geta virkað sem hvatar í því sambandi. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á er hægt að búa til einhverja hvata sem gera það að verkum að fólki með langskólamenntun sé gert auðveldara að setjast að úti á landi. Fyrir því eru fordæmi frá öðrum löndum.

Ég segi fyrir sjálfan mig að ég er í grundvallaratriðum ekki hrifinn af reglum af því tagi. Ég tel réttara að styðjast við almenna löggjöf, en það á við bæði um dreifðari byggðar á Íslandi og eins um Ísland í samanburði og samkeppni við önnur lönd, að það sem skiptir mestu máli eru ekki einhverjar sértækar aðgerðir, ekki einhverjir smáplástrar heldur einfaldlega það að tryggt sé að atvinnulíf á landsbyggðinni sé svo öflugt og blómlegt að það geti boðið fólki upp á góð lífskjör og góð laun. Ef fólk sér möguleika í atvinnulífi á Íslandi, ef fólk sér tækifæri á Íslandi þá kemur það heim. Ef fólk sér ekki tækifæri er það miklu tregara til þess að koma heim. Við sjáum það svo skýrt þessa dagana þegar við horfum fram á að jafnvel heil kynslóð fólks, eins og til dæmis á sviði læknisfræði, skilar sér ekki til baka með sama hætti og fólk hefur gert á undanförnum árum og áratugum.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti réttilega á að íslenskir læknar sækja sér framhaldsmenntun til útlanda í stórum stíl, þeir fara flestir til útlanda einhvern tíma á sínum ferli. Sem betur fer hefur meginhluti þeirra skilað sér aftur til Íslands og hefur það orðið til þess að efla hér heilbrigðisþjónustu og um leið komið með strauma inn í íslenskt samfélag, eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Síðustu árin hefur það gerst að læknar, og raunar fólk á fjöldamörgum öðrum sviðum, en þetta er kannski meira áberandi í hópi lækna þessi missirin, skila sér ekki heim einfaldlega vegna þess að þeir sjá ekki sömu tækifæri hér og áður voru fyrir hendi. Fyrir því eru margar ástæður. Ein ástæða er kjaralega hliðin, menn eiga möguleika á miklu betri tekjum annars staðar. Annað atriði eru starfsaðstæður, hér þurfa menn í mörgum tilvikum að vinna lengri vinnudag undir meira álagi, við verri aðstæður og verri tækjabúnað en annars staðar, en þeir eru vanir í þeim löndum þar sem þeir hafa stundað sérnám sitt. Það er alveg ljóst að brottflutningur langskólamenntaðs fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eða frá Íslandi almennt til útlanda (Forseti hringir.) verður ekki stöðvaður nema hér verði veruleg breyting í efnahagslífinu sem gerir okkur kleift að búa til samfélag (Forseti hringir.) sem getur boðið samkeppnishæf tækifæri og lífskjör.