144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður á sæti í atvinnuveganefnd og gat fylgst með þeirri vinnu sem þar fór fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar: Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar hér í dag að meiri hluti nefndarinnar hefði í rauninni tekið að sér hlutverk verkefnisstjórnar, það sem upp á vantaði. Mig langar þess vegna til að spyrja, af því að lögin um vernd og nýtingu, rammaáætlun, eru mjög skýr þegar kemur að verksviði verkefnisstjórnar, hvort meiri hluti nefndarinnar hafi þá, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, skipað faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari fyrir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli — hér spyr ég sérstaklega um Hagavatn — metið þá með stigagjöf og gert tillögu til verkefnisstjórnar. Mig langar líka til að spyrja hvort meiri hluti nefndarinnar, sem lítur á sig sem verkefnisstjórn, hafi leitað umsagna frá Umhverfisstofnun, Fornleifavernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Ferðamálastofu um hvort fyrirliggjandi gögn væru nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætluninni, (Forseti hringir.) hvort meiri hluti nefndarinnar hafi tekið þetta hlutverk sem verkefnisstjórn, eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar í dag, nægilega alvarlega til að fylgja bókstaf laganna.