145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afstaða Framsóknarflokksins til skattaskjóla.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að þetta er annars vegar þess eðlis að við viljum senda þau skýru skilaboð frá ríkisstjórninni, og að ég held frá þinginu, að við teljum mjög óeðlilegt að nýtt séu lágskattasvæði til að höndla með peninga. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að því ljúki. Um leið verðum við að viðurkenna að eitthvað sem var tíðarandi fyrir 12–15 árum og er löglegt samkvæmt íslenskum lögum viðgekkst. Þá verðum við að gera greinarmun á því hvort þar er um löglega hluti að ræða eða ólöglega. Þegar um ólöglega hluti er að ræða þar sem menn svíkja vísvitandi undan skatti vil ég, eins og ég sagði áðan, taka undir með þeim tillögum sem jafnaðarmenn, sósíaldemókratar, í Danmörku komu fram með og notuðu 1. maí til að kynna, það þarf að taka á þeim. (Forseti hringir.) Mér fannst ánægjulegt að heyra hversu mikill samhljómur er í þeim tillögum og því sem ég hef rætt úr þessum stól að nauðsynlegt sé að gera.