149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef setið hér og hlustað á fólk tala um fundarstjórn forseta og ítrekað kallað eftir því að forseti gefi okkur tækifæri til að sjá þessi plögg sem eiga að vera til en eru þó ekki til þar sem það kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar að þetta væri ekki annað en yfirlýsing.

Meira að segja flækist málið um of þegar yfirlýsingin er orðuð í EFTA með einum hætti og íslensk stjórnvöld orða yfirlýsinguna með öðrum hætti. (BÁ: Hver er munurinn?) Einmitt, hver er munurinn? (BÁ: Ja, ég spyr þig.) Þetta þarf að vera mjög skýrt og þess vegna þyrftum við að fá að sjá hvort það er munur. Getum við fengið að sjá eitthvert plagg sem hefur lagalegt gildi? Ég er þess vegna að biðja forseta að hlutast svo til um að við sjáum það.