149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir ánægju með hæstv. forseta og hvernig hann bar fram tillögu sína um að þeir þingmenn sem hér hafa áhyggjur af kollegum sínum, að þeir fái ekki nægan svefn, komi þá með tillögur að lausn í málinu. Mér finnst þetta eftirtektarverð frammistaða hjá forseta og mig langar að hrósa forseta fyrir að bjóða okkur að koma með tillögur að lausn.

Þeir sem þurfa að aka klukkustund fram og til baka til og frá vinnu, t.d. upp á Akranes, eins og hæstv. 1. varaforseti Guðjón S. Brjánsson — ég myndi segja að það mætti þá ekki ljúka hér störfum seinna en um kl. 11. Þá er sá hv. þingmaður kominn heim til sín um 12 og þarf að leggja af stað aftur klukkan hálfátta eða átta (Forseti hringir.) til að mæta í fyrramálið. Þá erum við að tala um sjö, átta klukkustunda hvíld sem ég held að sé í samræmi við lýðheilsumarkmið.