150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við hrunið 2008 átti að aftengja vísitöluna strax og það sama á við í dag. Við Covid-19 ástandið eins og við hrunið er verið að reyna að tryggja að fjármagnið skuli halda verðgildi sínu en það er gert án tillits til fjármála í dag. Það á ekki að aftengja vísitölu vegna hugsanlegrar verðbólgu heldur til að sýna að það enginn veit hvort hún fer af stað eða ekki því að það er bara spádómur sem er því miður oftast rangur og þá sérstaklega á svona tímum.

Við vitum að eftirspurn eftir ferðum, hótelum, veitingastöðum o.fl. er ekki til staðar lengur og hlutabótavinna og atvinnuleysi í hámarki. Þess vegna á að frysta afborganir af verðtryggðum lánum heimila og eins hjá fyrirtækjum sem eiga þann rétt, því verðbólguútreikningurinn verður og er rangur við þessar aðstæður. Leiga hjá fyrirtæki sem er lokað vegna Covid hækkaði um 400.000 kr. á einum mánuði, úr 2,4 milljónum í 2,8 milljónir, sem er fáránlegt. Ef ekki, er verið að bjóða hugsanlega hrægömmum að komast yfir heimili fólks og fyrirtækja eins og gerðist í hruninu. Fjármálafyrirtæki í boði ríkisstjórnarinnar yfirtaka eignir fólks aftur eins og gert var eftir bankahrunið.

Spilling og græðgi er því miður staðreynd í samfélagi okkar og fylgifiskurinn er fátækt og eymd þeirra sem verst standa í okkar þjóðfélagi, sár fátækt fyrir allt of margar fjölskyldur og börn sem líða skort á svo til öllum nauðsynjum. Afleiðingin er biðraðir eftir mat, raðgreiðslur til að borga lyf, biðlistar eftir aðgerðum á sjúkrahúsum, biðlistar eftir að komast til sálfræðings, biðlistar barna eftir að komast í meðferð hjá barna- og unglingageðdeildinni. Hvar er mennskan, réttsýnin, samúðin, heiðarleikinn? Hvað eiga þessi verst stöddu að bíða lengi enn þá eftir réttlætinu í boði ríkisstjórnarinnar á Alþingi? Eða ætla ríkisstjórnarflokkarnir enn einu sinni að lofa að breyta þessu eftir næstu kosningar?