150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

stimpilgjald.

313. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta en í þeim minni hluta eru undirritaður og Álfheiður Eymarsdóttir, þingmaður Pírata. Nefndarálitið er í sjálfu sér stutt og einfalt og ég ætla, með leyfi forseta, að byrja á að lesa það.

Frumvarpið kveður á um sértæka lækkun skatta sem er að mestu til hagræðis fyrir útgerðir sem kaupa og selja fiskiskip. 1. minni hluti telur þessa sértæku lækkun ótímabæra. Engar brýnar aðstæður kalla á að sköttum sé sérstaklega létt af útgerðinni eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ekki síst í ljósi þeirra erfiðu og óljósu tíma sem nú eru í efnahagsmálum.

Fyrsti minni hluti telur hins vegar að brottfall allra stimpilgjalda sé til lengri tíma litið skynsamleg ráðstöfun enda lagði Viðreisn, ásamt þingmönnum Pírata og Flokks fólksins, fram frumvarp þess efnis í upphafi þessa þings, samanber 93. þingmál, þegar efnahagshorfur voru mun bjartari. Það frumvarp gerir ráð fyrir að öll stimpilgjöld verði lögð af í áföngum. Nær væri að stíga slík skref á komandi árum. Þess vegna leggst 1. minni hluti gegn samþykkt þessa frumvarps.

Þá er ég búinn að fara yfir nefndarálitið en ég vil segja nokkur orð frá eigin brjósti í kjölfarið. Þetta sýnir sérkennilegan forgang ríkisstjórnarflokkanna þriggja, að leggja nú lykkju á leið sína til að lækka gjöld af útgerðarfyrirtækjum landsins. Það er athyglisvert hvernig forgangurinn raðast. Sagt er að þetta sé mjög mikilvægt af því að fiskiskipaeigendur þurfi að geta endurnýjað skip sín til að mæta háu orkuverði. Verð á olíu er í sögulegum lægðum og mun verða það eitthvað áfram þannig að sú röksemd er nú ekki mjög sterk.

Þá er líka rétt að benda á að nærtækara væri að hæstv. ríkisstjórn legði til að fella niður stimpilgjöld af fasteignaviðskiptum á þessum tímum en að einbeita sér að því að hygla útgerðinni sérstaklega með þessum hætti. Ég blæs á þau rök að hér sé eitthvert jafnræðissjónarmið sem ráði för. Það var þá a.m.k. ekki haft í huga þegar lögunum var breytt síðast en þá var af ásettu ráði skilinn eftir þessi flokkur atvinnutækja. Þá var ekki mikið verið að tala um jafnræði.

Ég held að það væri líka nær fyrir hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokka að ljá frekar máls á því að taka til alvöruskoðunar hugmyndir um að farin verði markaðsleið varðandi aflaheimildir og útgerðin greiði gjöld í samræmi við það sem markaðurinn segir til um. Þetta er því mjög afhjúpandi, finnst mér, fyrir þessa þrjá flokka sem setja núna saman í ríkisstjórn, að sérstök ástæða sé til þess að leggja lykkju á leið sína til að bæta hag útgerðarinnar, sem ég sé ekki að sé í neinum sérstökum vandræðum um þessar mundir. Þetta vildi ég sagt hafa. Mér finnst þetta vont mál á þessu stigi og mun greiða atkvæði gegn málinu þegar það kemur til atkvæðagreiðslu.