150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

stimpilgjald.

313. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Annar minni hluti, sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, er með stutt og laggott nefndarálit. Ég ætla að lesa það hér:

Annar minni hluti telur áform um breytingu á stimpilgjaldi af skjölum vegna eignayfirfærslu skipa undarlegt forgangsmál ríkisstjórnarinnar á tímum heimsfaraldurs og lækkandi tekna ríkissjóðs. 2. minni hluti tekur undir umsögn frá Félagi skipstjórnarmanna og sameiginlega umsögn Sjómannasambands Íslands og VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, um að afnám stimpilgjalds þegar skip koma í fyrsta skipti á íslenska skipaskrá komi vel til greina en ekki í hvert sinn sem skipum er flaggað út og inn af íslenskri skipaskrá eftir hentugleika.

Afleiðingar þessarar breytingar geta orðið verulegar fyrir stöðu íslenskra sjómanna. Stöðu sjómanna ætti frekar að gæta að og styðja í stað þess að grípa til ráðstafana sem ógna atvinnuöryggi þeirra. Skýrt dæmi um slíkt er þegar íslensk skip eru skráð á Grænlandi en samkvæmt grænlenskum lögum er skylda að allir undirmenn á skipinu séu grænlenskir. Einnig eru slysatryggingar og kjarasamningsbundin réttindi sem sjálfsögð eru á íslenskum skipum ekki á skipum sem flaggað er til Grænlands.

Verði frumvarpið að lögum má búast við að útflöggun skipa aukist með neikvæðum afleiðingum fyrir kjör íslenskra sjómanna og því leggst 2. minni hluti gegn samþykkt frumvarpsins og lýsir um leið undrun sinni á þessari forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á tímum atvinnuleysis og óvissu.

Herra forseti. Ég get tekið undir með þeim ræðumanni sem talaði hér á undan mér að nær væri að líta á þá auðlindarentu sem útgerðin ætti að skila til þjóðarinnar heldur en að fella niður stimpilgjöld til að auðvelda þeim að flagga skipum inn og út með afleiðingum sem eru ekki æskilegar fyrir íslenska sjómannastétt.