151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

störf þingsins.

[13:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Umræðan um fjárhagsvanda hjúkrunar- og dvalarheimila er hávær. Mörg þeirra virðast komin að gjaldþroti. Nokkur sveitarfélög hafa þegar kastað inn hvíta klútnum og segja: Við getum ekki meir, við viljum ekki meir. Einn milljarður á fjáraukalögum breytir engu, viðheldur óbreyttu ástandi og áframhaldandi óvissu. Þetta er skammgóður vermir. Því síður breytir það nokkru að lofað er í nýrri fjármálaáætlun fjármögnun á 263 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu fjórum árum. Hugmyndafræðin er líka gjaldþrota. Ramakvein heyrast víða í heilbrigðiskerfinu, enn og aftur frá Landspítala; mannekla, plássleysi, fjárskortur og fagleg kreppa.

Herra forseti. Það stappar nærri neyðarástandi á mörgum sviðum í þjónustu við aldraða. Stjórnvöld hljóta að þurfa að kúvenda í stefnu sinni í öldrunarþjónustu, horfa á stóru myndina í nýju ljósi. Sú allt of einhliða sýn sem lýtur að stofnanarekstri gengur ekki upp og er tímaskekkja. Öðrum þjóðum er orðið það ljóst, en ekki Íslendingum.

Eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á í ræðu sinni, um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða, sem við í Samfylkingunni lögðum fram um miðjan maí, er einsýnt að hjúkrunarheimilareksturinn mun kosta ríflega 100 milljarða eftir áratug ef við höldum sama striki. Það er ekki góður kostur fyrir aldraða sem í nútímanum sjá ekki fyrir sér vist á hefðbundnum langdvalarstofnunum sem boðlegan kost, og ekki góður kostur fyrir ríkiskassann, enda var nýkjörnum formanni Landssambands eldri borgara mikið niðri fyrir í Kastljóssviðtali í fyrrakvöld.

Herra forseti. Umbreyting er stórt verkefni en hún er nauðsynleg, ekki dægurmál. Hún krefst þverpólitískrar samstöðu og langtímastefnumótunar um nýtt líf og nýja framtíð fyrir aldraða. Heilbrigðis- og velferðartækni, frábært fagfólk og annað sérþjálfað starfsfólk í þjónustunni skapar okkur ótal möguleika sem við höfum enn ekki nýtt okkur. Þetta er nýsköpunarverkefni í sinni tærustu mynd og leiðarstefið á að vera samvinna, mannúð og skapandi hugsun. Þarna hefur Samfylkingin skýra sýn.