Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:51]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Eftir hrun seldi Íbúðalánasjóður frá sér um 4.300 íbúðir á gjafverði. Íbúðirnar voru seldar til leigufélaga sem fengu jafnvel lánað á hagstæðum kjörum fyrir stærstum hluta kaupverðsins. Leiða má líkum að því að þær séu grunnur auðæva þeirra nú. Engum sögum fer hins vegar af fólkinu sem bjó í þessum íbúðum, engum sögum fer af fólkinu sem þarna missti heimili sín vegna stökkbreyttra lána, vegna aðstæðna sem það bar enga ábyrgð á. Í stað þess að hjálpa þessu fólki voru íbúðir þess hirtar af þeim, annaðhvort á nauðungarsölu eða gegnum einhvers konar samkomulag, og seldar fjársterkum aðilum sem margir hverjir höfðu auðgast á árunum fyrir hrun. Kannski fékk sumt af þessu fólki að leigja heimili sín áfram af nýjum eigendum en öðrum var klárlega hent út. Enginn hefur haft áhuga á því að kanna hag þessa fólks eða annarra fjölskyldna sem misstu allt sitt eftir hrunið, enda gætu mjög óþægilegir hlutir komið í ljós sem engin ríkisstjórn frá hruni vill að fréttist.

Hitt er ljóst að leigumarkaðurinn óx í svo til sama mæli og íbúðirnar voru hirtar af fólki. Sá vöxtur hefur síður en svo gengið til baka þannig að sennilega er flest þetta fólk enn þá fast þar. Þessi mistök og þetta miskunnarleysi gagnvart viðskiptavinum sjóðsins má alls ekki endurtaka sig. Verði Íbúðalánasjóður leystur upp þarf að huga sérstaklega að hagsmunum neytenda, þ.e. heimila sem enn eru með lán frá Íbúðalánasjóði. Það verður að huga að því hvað eigi að verða um þá neytendur sem enn skulda Íbúðalánasjóði húsnæðislán. Er ætlunin að selja lán þeirra í einhvers konar vafningum, öðrum kröfuhöfum til innheimtu, eða jafnvel sjóðinn í heild? Ef svo er, hvernig verða hagsmunir og réttindi þeirra í þeim viðskiptum tryggð? Sporin hræða. Sú skelfing sem gerðist þegar lánasöfn sparisjóðanna og Frjálsa fjárfestingarbankans voru sett í umsjón sérstaks félags sem kallað var Drómi er okkur mörgum enn í fersku minni. Við viljum alls ekki horfa upp á Dróma 2, eða hvað? Er fjármálaráðherra tilbúinn til að ábyrgjast að lántakendur Íbúðalánasjóðs muni í engu glata réttindum sínum verði lán þeirra framseld öðrum kröfuhöfum? Í þetta skipti er ekki í boði að henda neytendum út á guð og gaddinn. Réttindi og hagsmunir þeirra verða að vera í forgangi.