Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er áhugavert að pæla í því af hverju þessi lán voru ekki uppgreiðanleg alla leið. Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Hver er ástæðan þar á bak við? Það hefur ekki komið fram. Það hefur enginn náð að finna út nákvæmlega hvað það var, en það eru nokkrir möguleikar. Annars vegar það sem kemur fram t.d. í rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð, með leyfi forseta:

„Breytingar á fjármögnun Íbúðalánasjóðs í þá veru að gera skuldabréf sjóðsins eftirsóknarverðari fyrir erlenda fjárfesta virðast unnar að einhverju leyti í samvinnu við þá sem hlut áttu að samningu minnisblaðsins. Óskir erlendra fjárfesta um uppgjörshæfi bréfanna og stærð flokka komu fram um síðustu aldamót.“

Þarna eru sem sagt ákveðnar kröfur frá erlendum fjárfestum. Þetta þarf að vera álitleg og örugg fjárfesting, sem hún er miðað við þessa skilmála. Þar er komin möguleg ástæða fyrir því að það var tekin pólitísk ákvörðun um að hafa ekki uppgreiðsluákvæði alla leiðina í þessu máli. En þarna er samhljómur við ýmislegt annað sem við sjáum. Það þurfti að passa upp á erlendu kaupendurna í Íslandsbanka. Hrunið er þar á bak við og salan á bönkunum þar. Alltaf eru þetta blessuðu erlendu fjárfestarnir sem einhverjir vilja selja, merkilegt nokk. Hins vegar eru það síðan lífeyrissjóðirnir og ávöxtunarkrafa þeirra, 3,5% ávöxtunarkrafa, til að standa undir þeim skuldbindingum sem þar eru á bak við. Eftir hrunið var tekið eitt hæsta lán með hæstu vaxtaprósentu hjá lífeyrissjóðunum, einfaldlega til þess að verja lífeyri fólks. Eftir stöndum við, eftir öll þessi mistök og eftir þessa ákvörðun um að hafa þessar skuldir ekki uppgreiðanlegar, og það á einhver að taka ábyrgð. Það á einhver að viðurkenna: Já, þetta var okkar vandamál. Við tókum þessa ábyrgð. Við ætlum að taka pólitíska ábyrgð á því að þetta mun kosta ríkissjóð marga, marga milljarða. Við erum í því ástandi (Forseti hringir.) að lánshæfismat íslenska ríkisins hjá matsfyrirtækjum er enn þá að líða fyrir afleiðingar hrunsins. Matsfyrirtækin treysta okkur ekki út af því hvernig þau oftreystu okkur í rauninni í hruninu, þau eru enn þá brennd eftir það.