131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[11:03]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu. Ég finn það á þingheimi að menn skynja að það eru breyttir tímar og lánasjóðurinn stendur á miklum tímamótum. Staðan er nú sú að hann á í dag 3,3 milljarða í eigin fé sem vissulega gæti rýrnað ef ekki verður brugðist við. Þess vegna er það mikilvægt. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, og það hefur komið hér glöggt fram í umræðunni, að bændur greiða búnaðargjaldið sem er 140 milljónir á ári. Það kom hér glöggt fram í ágætri ræðu hv. þm. Katrínar Ásgrímsdóttur að annar hópurinn framkvæmir og hinn hópurinn, sem ekki framkvæmir, greiðir með þeim stóru. Þetta er auðvitað félagshyggja sem bændur gagnrýna í dag. Þess vegna var búnaðarþing svo ákveðið í afstöðu sinni að enginn mælti með því að þessu kerfi yrði haldið óbreyttu.

Hitt blasir við að Lífeyrissjóð bænda vantar í dag 2,6 milljarða til að geta staðið við skuldbindingar sínar horft til framtíðar og er hann veikasti lífeyrissjóður landsins. Vilji stjórnarflokkanna er að efla þann sjóð og styrkja til þess að bændur sem bregða búi hafi betri stöðu. Hér er því auðvitað um stórmál að ræða.

Ég hef verið gagnrýndur fyrir að koma með svona mál seint og hefði átt að bregðast við fyrr. Peningaþróunin á markaðnum hófst þó ekki fyrr en í ágúst sl. sumar þannig að tíminn er ekki langur og svona mál verður auðvitað að ganga mjög hratt fyrir sig. Ef það gerir það ekki getur staða lánasjóðsins rýrnað verulega og verið minna fé í honum horft til lengri tíma. Þess vegna verða svona mál að gerast mjög hratt.

Ég óska bara eftir góðu samstarfi við þingflokkana og stjórnarandstöðuna um þetta mál. Þetta er tilfinningamál. Ég þekki Lánasjóð landbúnaðarins vel, var formaður hans fyrr á árum og ber miklar tilfinningar til hans (Forseti hringir.) en ég vil auðvitað nýta hann og breyta honum í samræmi við það sem nú blasir við og nýta fjármagn hans (Forseti hringir.) til þess að efla hag bænda og þá lífeyrissjóðsins. Það eiga bændur inni hjá þessum sjóði.