131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:21]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir spurningar og umræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um staðsetningu á stofnun sem þessari. Ég tel mikilvægt í umfjölluninni að við vitum hvar hæstv. ráðherra ætlar að setja stofnunina, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir ákveðnum greiðslum til starfsmanna sem ekki munu vinna hjá hinni nýju stofnun. Ég held að mat á því hljóti að verða í ljósi þess hvar stofnunin verður staðsett, en hvet eindregið til þess að hún sé úti á landi og auðvitað helst á Akureyri.

Það er annað sem ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að. Samkvæmt frumvarpinu á forstjóri stofnunarinnar að vera dýralæknir með æðri prófgráðu á sama tíma og hann setur plöntueftirlit Landbúnaðarháskólans í þá tilteknu stofnun. Ég velti fyrir mér: Hvers vegna eru gerðar kröfur um að dýralæknir með æðri prófgráðu sé í plöntueftirliti?