131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:55]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi alveg hvað hv. þingmaður átti við með orðum sínum áðan. Ég gerði ekki ráð fyrir að hann ætlaði að bæta störfum þeim sem nú eru unnin í þeim stofnunum sem leggja á niður á þá starfsmenn sem vinna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hins vegar er það svo að það eru til staðar kjarnar, eða hvað maður á að kalla það, nokkuð víða um land sem betur fer þar sem hægt er að bæta við mannauði og efla og búa til samlegðaráhrif með fleira fólki. Það er sem betur fer víðar en rétt í radíus í kringum Reykjavík, m.a. á Norðurlandi vestra.

Varðandi það hvort við hefðum átt að leggja til að háskólinn á Hólum yrði lagður undir Landbúnaðarháskóla Íslands, þá er svar mitt einfaldlega nei. Ég er alfarið mótfallin því og tel að starfsmenn á Hólum sýni það með mjög kraftmiklu starfi og uppbyggingu að þeir eru að gera það gott með því að starfa sjálfstætt. Ég vona að hæstv. landbúnaðarráðherra detti ekki í hug að leggja það til að háskólinn á Hólum verði settur undir Landbúnaðarháskóla Íslands.