138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta gríðarviðamikla verk sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar er felur í sér mikinn efnivið fyrir okkur alþingismenn, fyrir framkvæmdarvaldið og alla stjórnsýsluna, til að draga af lærdóm, vinna úr og gera margvíslegar betrumbætur sem lestur þessarar skýrslu dregur fram að gera þurfi. Ég held að meginniðurstaðan sem snýr að stjórnvöldum, og það varðar ekki síður Alþingi en framkvæmdarvaldið, sé að það er dregin fram sú aðgerðaskylda sem hvílir á stjórnvöldum hvers tíma. Þegar niðurstöður varðandi vanrækslu eru skoðaðar eru þær í yfirgnæfandi hluta tilfella tengdar þessum þætti málsins. Vanrækslan var fólgin í andvaraleysi og aðgerðaleysi, það sem hefði átt að gera, a.m.k. reyna að gera, var ekki gert og jafnvel ekki reynt. Þetta er kannski einna átakanlegast þegar maður les umfjöllunina um efnahagsmálin og hagstjórnina og þau glötuðu tækifæri áranna 2004–2006 sem fóru forgörðum vegna þess að menn gerðu ekki og jafnvel reyndu ekki að gera það sem þá hefði þurft að gera.

Almennt skiptir okkur miklu máli að skýrslan er jafnviðamikil og vel rökstudd og raun ber vitni og þar með gott gagn til að takast á við þessa hluti. Skilaboðin eru mikilvæg ef þau eru rétt fram sett. Meginskilaboðin eiga auðvitað að vera þau að Ísland ætlar ekki að horfa undan. Það eiga að vera skilaboðin bæði inn á við og út á við. Við ætlum að horfast í augu við það sem hér gerðist en ekki sópa því undir teppið og við ætlum að taka á því. Það eru ekki síður mikilvæg skilaboð út á við til alþjóðasamfélagsins og þau hafa þegar vakið athygli, jafnvel svo að menn spyrja nú í sumum nálægum löndum: Þurfum við ekki að gera það sem Íslendingarnir eru þegar búnir að gera, að fara í rækilega rannsókn á þeim atburðum sem urðu í efnahagslífinu, orsökum þeirra og afleiðingum? Ef við notum það rétt, Íslendingar, mun það hjálpa okkur við að öðlast trúverðugleika á nýjan leik, að við séum viðsemjandi og viðtalandi, bæði í pólitískum samskiptum, efnahagslegum samskiptum og viðskiptum.

Það er enginn tími til að fara hér með tæmandi hætti ofan í einstök efnisatriði eða einstaka málaflokka þessarar skýrslu. Ég ætla þó að nefna þrennt eða fernt. Í fyrsta lagi þá greiningu sem hér er á peningamarkaðssjóðunum. Tvennt stendur þar upp úr. Það er annars vegar starfræksla þeirra innan bankanna þar sem flestu var ábótavant sem ábótavant gat verið. Árið 2006 breytist t.d. fjárfestingarstefnan og farið var í fjárfestingarsjóði á kostnað verðbréfasjóða. Með öðrum orðum, almenningi var skipulega beint í áhættumeira sparnaðarform. Fjárfestingarstefna peningamarkaðssjóðanna varð að meginstefnu í verðbréfum og innlánum móðurfélaga, eigenda þeirra og annarra tengdra félaga. Áhættustýring fullnægði ekki kröfum. Sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum var verulega ábótavant. Eftirliti Fjármálaeftirlitsins var verulega ábótavant. Með öðrum orðum: Það var eiginlega allt að. Það var eiginlega ekkert í lagi.

Í öðru lagi veðlánaviðskipti Seðlabankans við bankana og fjármálastofnanir. Það er hrollvekjandi lesning. Þar liggja góðar skýringar á því hvernig sá sorglegi atburður varð að Seðlabankinn varð gjaldþrota og þjóðarbúið tapaði hundruðum milljarða króna. Ég er ekki að segja að Seðlabankanum hafi ekki verið vandi á höndum að reyna að greiða fyrir því að bankarnir hefðu aðgang að lausafé þegar harðnaði á dalnum en að það skyldi gert með þeim hætti sem var gert og ekki teknar betri tryggingar fyrir lánunum er stórkostlega ámælisvert. Þennan þátt verður að rannsaka. Þarna verður m.a. Seðlabankinn að horfast mjög í augu við sjálfan sig, sínar aðferðir og sín vinnubrögð á þessum tíma.

Ég nefni í þriðja lagi Icesave-málið og þá rækilegu skoðun sem það mál fær, fyrst og fremst aðdragandi þess, í nokkrum köflum skýrslunnar. Þeir kaflar draga mjög skýrt fram það sorglega andvara- og aðgerðaleysi sem varð til þess að Icesave-málið varð að þeirri ófreskju sem raun ber vitni. Rót vandans liggur í að þessu var leyft að verða til og verða að því sem það varð. Það voru nánast engar varnir undirbyggðar, ekki einu sinni hugað að því hvernig íslensk stjórnvöld skyldu bregðast við eða hvernig þau skyldu svara væri að því spurt til hvaða ráða ætti að taka. Að það skyldi ekki takast að koma Icesave-reikningunum úr útibúum yfir í dótturfélög, jafnvel þótt það hefði þurft að borga myndarlega með því, er óskapleg sorgarsaga. Auðvitað hefði þetta aldrei átt að verða til með þeim hætti sem það varð, aldrei fá að ganga svona langt og sorglegast af öllu var að menn skyldu ekki einu sinni hafa meðvitund um það hvaða óskaplega hætta var að myndast þarna fyrir íslenskt efnahagslíf. Að það skyldu þurfa að vera erlend stjórnvöld sem reyndu ítrekað að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á því sem þarna var í uppsiglingu og fengu litlar undirtektir og lítil viðbrögð, að tilboð um að aðstoða Ísland við að komast út úr þessu skyldi ekki vera þegið. Þetta er óendanlega sorglegt og um það þarf í raun og veru ekki að hafa fleiri orð.

Um stjórnsýsluna er að sjálfsögðu mikið fjallað. Hún fær áfellisdóm. Það þurfa allir að horfast í augu við. Alþingi Íslendinga þarf að horfast í augu við það. Af hverju var eftirlitshlutverk Alþingis ekki virkara á þessum tíma? Af hverju voru menn jafn sofandi á verðinum, jafnilla undirbúnir að takast á við áföll? Við ræddum hér náttúruhamfarirnar eystra. Sá munur er á að við fáum litlu um það ráðið hvenær gýs í Öræfajökli en við getum reynt að undirbúa okkur vel, hafa varnargarða og almannavarnaviðbúnað og það höfum við gert. Gagnvart því þegar hamfarir af mannavöldum eiga í hlut er þetta ekki afsökun því það eru ekki óviðráðanleg náttúruöfl heldur við sjálf. Við eigum að geta ráðið við okkur sjálf. Við mannskepnurnar eigum að geta sett okkur sjálfum skorður og búið okkur út leikreglur þannig að svona hamfarir verði ekki af völdum okkar sjálfra og á okkar eigin kostnað. Þar liggur munurinn á náttúruhamförunum og þeim sem eru af mannavöldum.

Við þurfum að fara mjög rækilega í gegnum þetta. Eitt vekur t.d. athygli, að aftur og aftur í skýrslunni er bent á þá staðreynd að íslenskar stjórnsýslueiningar eru fámennar og veikburða. Það leiðir að sjálfsögðu að hluta til af þeirri staðreynd að við erum ekki nema 320.000 manna þjóð. Það mætti komast að þeirri niðurstöðu aftur og aftur við lestur skýrslunnar að við þyrftum að vera a.m.k. ein og hálf milljón en það erum við ekki og verðum ekki í bráð. Við erum smáþjóð. Við verðum að móta okkar skipulag og verklag og stofnanauppbyggingu í samræmi við það. Ég kemst aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að vænlegasta leiðin í þeim efnum sé að styrkja þessar einingar, sameina þær og gera þær stærri og burðugri þannig að innan þeirra verði nægjanlegur mannafli og sérþekking til þess að beita þegar á þarf að halda í aðstæðum sem þessum.

Það er margt sem varðar verkferla, skráningu upplýsinga og ákvarðanatökuferla, rekjanleika mála og annað í þeim dúr sem við þurfum að fara rækilega í gegnum. Stjórnarráðið allt, eftirlitsstofnanir og stjórnsýslustofnanir þurfa að lesa þessa skýrslu mjög vel. Ég mun mæla með því, að sjálfsögðu innan míns ráðuneytis og ég geri það almennt, að hvert einasta ráðuneyti og hver einasta stofnun setji á fót starfshóp til þess að fara vandlega yfir niðurstöður þessarar skýrslu, taka við tillögum sérstakrar nefndar um ábendingar og úrbætur og vinna þetta verk af alúð á næstu mánuðum og missirum. Það er algerlega í okkar höndum að bregðast við og vinna úr þessu eins og öðru. Það er okkar að nota þessa skýrslu þannig að hún verði okkur til gagns, hún verði mikilvægt undirlag að úrbótum og umbótum á komandi missirum þannig að tekist verði á við veikleikana. Það er í okkar höndum að bregðast ekki því sem nú snýr að okkur eftir að þessi skýrsla er komin út. Við skulum ekki bregðast íslensku þjóðinni öðru sinni með því að vinna ekki heiðarlega og einarðlega úr þeim gögnum sem við höfum nú á borðunum. Það er mikið verk og mun taka sinn tíma en það á að hefjast handa við það nú þegar. Nóg er samt tjónið, vonbrigðin og eðlileg reiði og óánægja meðal almennings yfir því sem gerðist en aldrei átti að gerast og aldrei þurfti að gerast þó að hitt bætist ekki við að menn klúðri því að takast vel og heiðarlega á við framhaldið. Það tel ég að hafi að þessu leyti verið mjög vel gert með skýrslunni. Hún er gríðarlega mikilvægur áfangi á þessari vegferð okkar, að því tilskildu að menn noti þær upplýsingar sem þar koma fram á uppbyggilegan hátt.