138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný þakka umræðuna sem hér hefur verið. Hún er góð og málefnaleg. Ég hef hlustað á margar ræður og velt fyrir mér því sem þar hefur komið fram. Mér heyrist allir þingmenn meira og minna vera á sama máli. Hér þarf að breyta ýmsu. Það þarf að breyta starfsháttum Alþingis og efla innviði Alþingis og eftirlitshlutverk. Ég hef gagnrýnt þann starfsvettvang sem ég hef nú starfað á í þrjú ár en um leið vil ég segja að þeir starfsmenn sem hér vinna eru án undantekninga framúrskarandi og hafa sýnt af sér mikla fagmennsku. Þeir verða að fá að eiga það sem þeir eiga. Ég held engu að síður að þeir séu of fáir og að aðbúnað þeirra og starfsumhverfi mætti stórbæta.

Í skýrslunni er fjallað um hagstjórnarmistök síðustu ára. Það hefur verið rætt um að það hafi verið mistök að lækka skatta á þenslutímum. Það hafi verið mistök að hækka lánshlutfall hjá Íbúðalánasjóði upp í 90%, sem gerði það að verkum að bankarnir komu af þvílíku offorsi inn á húsnæðismarkaðinn að hér skapaðist mikil þensla. En ef við horfum til þess sem við erum að gera í dag á þá ekki einmitt að varast það að hækka skatta þegar samdráttur er? Núverandi stjórnvöld hafa farið í gríðarlegar skattahækkanir og umbreytingar á skattkerfinu, það er mun flóknara en áður var. Við erum að fara yfir hagstjórnarmistök, ekki bara í fortíðinni heldur líka í því sem við erum að fást við í dag. Ég held að okkur sé á öllum tímum hollt að ræða og fara yfir málefnalega hvað við erum að gera hér á Alþingi. Við höfum tæki og tól til þess að breyta hlutunum en mér finnst okkur miða lítið áfram.

Í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra, eftir annars ágæta ræðu hans, gagnrýndi ég það að við búum enn við það flokksræði sem leiddi okkur í þær ógöngur sem við ræðum á Alþingi í dag. Mér er mjög minnisstætt að í aðdraganda hrunsins þökkuðu hægri menn og frjálshyggjumenn einkavæðingunni umsvif bankanna, þeir töldu að einkavæðingin væri forsenda þess að bankakerfið hefði þanist út og það væri að skila tekjum í ríkissjóð. Svo voru margir, einkum samfylkingarmenn, sem bentu á að það væri nú kannski ekki einkavæðingunni einni að þakka heldur EES-samningnum og þeirri staðreynd að við hefðum innleitt hann. Það var farið yfir EES-samninginn en ég sakna þess þó að það hafi ekki verið gert ítarlegar vegna þess að tilskipanir ESB voru innleiddar án umræðu og án gagnrýni. Ég held að í dag blasi við að það hafi verið gríðarleg mistök. Kannski liggur vandinn í því að viss stjórnmálaflokkur hefur haldið því á lofti að EES-samningurinn sé af hinu góða og eingöngu af hinu góða. Er ekki niðurstaðan sú að eins og einkavæðing bankanna og framkvæmd hennar hafi verið mistök þá hafi upptaka EES-samningsins og hin gagnrýnislausa umræða sem fór fram um hann líka verið mistök? Ég held að okkur hér á Alþingi sé hollt að ræða það um leið og við ræðum hagstjórnarmistök fortíðarinnar og nútíðarinnar og vonandi komum við í veg fyrir fleiri mistök í framtíðinni.