138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú eiginlega ekki að veita andsvar vegna þess að ég tel að þessi einkavæðing sé mjög jákvæð. Ég kom henni líka að hjá — (Gripið fram í: Hvað ertu að tuða þá?) Ég hef ekki verið að tuða. Ég kom því að við fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins og ég gaukaði því að hæstv. fjármálaráðherra óformlega, hann man kannski eftir því, að þetta mundi leysa mörg vandamál, að láta bankana taka yfir nýju bankana vegna þess að þá væru miklu minni deilur um uppgjörið sem felst í (Gripið fram í.) afskriftasjóðunum og það yrði ný þekking sem kæmi inn í bankana. Það kæmu ný tengsl, t.d. lánatengsl, þeir mundu útvega lán til Íslands. Auk þess minnkaði framlag ríkissjóðs um rúmlega 200 milljarða. Þetta er jákvætt. Vandamálið er að ekki er vitað hverjir eigendurnir eru og menn eiga bara að segja það. Kannski hefði þurft að koma hérna lagafrumvarp til að hafa þetta alveg á tæru. Kröfurnar ganga kaupum og sölum alla daga, þannig að eignarhaldið er stöðugt að breytast. En ég reikna með því að þessir eigendur hafi eins og aðrir eigendur áhuga á því að hér gangi vel, að þessi eign þeirra tapist ekki. Þeir hafa núna allt í einu áhuga á því að íslenskt efnahagslíf gangi vel. Þetta eiga menn hreinlega að segja. En það sem vantar inn í þetta allt saman er það sem varð kerfinu að falli, þ.e. galli í hlutabréfaforminu sem ég er margbúinn að nefna því það hefur ekki verið lagað.

Frumvarp um gagnsæju hlutafélögin, ég held að menn ættu að skoða það mjög nákvæmlega vegna þess að eftir sem áður er þessi galli til staðar. Þótt maður setji langa keðju og láti gilda fyrir næsta eiganda og þarnæsta eiganda getur keðjan orðið 20 eða 30 fyrirtæki, löng, og endanlegur eigandi er einhvers staðar langt, langt í burtu en hefur samt áhrif.

Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að vinna með mér í því að finna lausn á þessum galla þannig að við þurfum ekki að óttast það að sama fyrirbæri komi upp aftur.