138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hæstv. ráðherra framlagningu þessa máls og fagna því að það kom inn til fjárlaganefndar. Ýmislegt í þessu er þess eðlis að ég tel nauðsynlegt að farið verði mjög ítarlega yfir þá þætti sem hér eru á ferðinni í frumvarpi um þetta opinbera hlutafélag.

Það vekur samt sem áður athygli mína við yfirlestur á þessu máli hversu þó almennt þetta er orðað sums staðar og hvað ekki fylgir, t.d. þar sem segir í 2. gr. frumvarpsins að tilgangi félagsins sé nánar lýst í samþykktum þess, og væntanlega er ekki gert ráð fyrir því að Alþingi samþykki frumvarpið fyrr en þær samþykktir liggja fyrir og þær hafa ekki fylgt frumvarpinu. Það sem mér finnst líka og tek eftir er að við sjáum hér nýja nálgun á heiti á því verkefni sem hér er um að ræða. Hingað til hefur þetta verið kallað einkaframkvæmd en hér er komið heiti sem er „samstarfsframkvæmdarverkefni“. Ég vildi gjarnan heyra hver er skilningur hæstv. ráðherra á því hvaða munur liggur í eðli þessara tveggja hugtaka, annars vegar einkaframkvæmd og hins vegar því óþjála heiti samstarfsframkvæmdarverkefni, hvar grundvallarmunurinn liggur í þessu.

Einnig vildi ég gjarnan heyra í hæstv. ráðherra varðandi kostnaðarþáttinn sem svo var lýst að það yrði ekkert um það að ræða að neinar greiðslur yrðu af hendi ríkisins og að mögulegt yrði að snúa til baka ef kostnaðurinn við verkefnið liti út fyrir að verða of hár, (Forseti hringir.) hvort hann hefði fulla trú á því að svo yrði gert.