138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það á reikna skuldbindinguna en það á ekki að færa hana til skuldar. Ég er alveg gáttaður. Hvað þýðir það eiginlega? Það er þarna einhver skuldbinding en við ætlum ekki að skulda hana. Eða hvað?

Ég held að menn ættu að fara að stúdera stjórnarskrána miklu betur. Það er ekki út í bláinn að ákvæði 40. gr. var sett í stjórnarskrána. Þetta er til þess að núverandi Alþingi sé ekki að skuldbinda Alþingi framtíðarinnar til að borga eitthvað eða leggja á skatta án þess að vita það. Ég skora á hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar að gæta að 40. gr. stjórnarskrárinnar sem hv. þingmenn hafa svarið eið að og skoða hvort eigi ekki að færa þetta til skuldar hjá ríkissjóði eins og þetta er. Leigunni verður ekki hnikað. Ríkissjóður, fjármálaráðherrar framtíðarinnar geta ekki hætt við og sagt: Heyrðu, nú höfum við ekki efni á þessu, við eigum ekki pening fyrir þessu, við ætlum að lækka þessa leigu eða eitthvað svoleiðis. Það er ekki hægt. Það er búið að skuldbinda ríkissjóð. Þá er eins gott að vita það, til þess er þetta ákvæði sett í stjórnarskrána að menn séu ekki með allt fullt af skuldum sem enginn veit um. Þetta á að vera skuldbinding hjá ríkissjóði og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verður að kyngja því ef það er nauðsynlegt. Ég er alveg sammála öllu því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um það.