140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég kem hingað aðallega til að mótmæla skoðun eða áliti hv. þm. Magnúsar Norðdahls um að eingöngu eigi að samþykkja tillögur frá nefndum. Þingmenn hafa fulla heimild til að leggja fram breytingartillögur hvenær sem er og þær verða til umræðu og til afgreiðslu. Hins vegar er þessi tillaga, eins góð og hún er, þáttur í því að búa til stjórnarskrá sem er út og suður. Það er mjög margt skynsamlegt í henni en annað miður. Ég fékk til dæmis ekki heyrt neitt frá hv. stjórnarliðum um fyrirbæri sem er í þessari stjórnarskrá og heitir Lögrétta og ég er mjög hrifinn af. Það hefur enginn rætt um það en þjóðin á að fara að greiða atkvæði um það. Eins og svo margt annað er þetta út og suður og ég get ekki staðið að breytingartillögum, þótt skynsamlegar séu, vegna þess að þær fara inn í atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin á að greiða atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá með öllum kostum og göllum.