140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er með trega sem ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu. Í þeirri efnislegu umræðu sem hér átti sér stað, eingöngu hjá hv. stjórnarandstæðingum, því miður, fór ég yfir það aftur og aftur að það væri mikilvægt að fólk skildi stjórnarskrána án þess að fá langar lögfræðilegar útlistanir á því hvað hún þýðir.

Hins vegar erum við hér að ræða um að byggja upp atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin á að greiða atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá. Eins og ég gat um áðan eru þau atriði flestöll órædd. Hv. stjórnarliðar hafa ekki tekið efnislega þátt í þeirri umræðu og ég veit ekkert um skoðanir þeirra, þeir vita kannski ekki sjálfir hvaða skoðun þeir hafa á Lögréttu o.s.frv., en mér finnst alveg ótækt að setja eitt stykki stjórnarskrá í atkvæðagreiðslu til þjóðarinnar þar sem atriðin eru út og suður.

Ég segi þess vegna nei.