140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er leiðinlegt að við skulum þurfa að ræða það mál hvort spyrja eigi þjóðina og hún eigi að svara því (Gripið fram í: ESB?) að hér sé jafn atkvæðisréttur. (VigH: Já, blasir þetta ekki við?) Það er svo sjálfsagt í lýðræðisríki að mönnum þykir það undarlegt þegar þeir skoða hið forna lýðveldi og lýðræðisskipan á Íslandi. Það er rétt að rifja upp að þegar kosningaeftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu kom hingað síðast, í kosningunum 2009, gerði hún sérstaka athugasemd, sína alvarlegustu, við einmitt þetta atriði, að kosningarrétturinn væri ekki jafn. Þannig var það.

Ég held að þetta gæti orðið til mikils gagns í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess að henni fylgir líka umræða. Ég vonast til að sú umræða leiði til þess að þetta atriði verði tekið sem einn þátturinn í þeirri sátt sem löngu (Forseti hringir.) er kominn tími til að við sköpum milli byggðanna í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)