140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, sannarlega, ég rek alltaf út eyrun þegar hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir kemur hingað í stólinn og reyni að hlusta eins mikið á hana og ég get. Ég gleðst yfir því að það er ekki andstaða við verkefnið sjálft sem veldur því að hún stendur á móti því að verkefnið fái úr þessum IPA-sjóði um það bil 90–95 millj. kr. — þetta er í evrum þannig að upphæðin er ekki alveg klár, það miðast við gengið — heldur það að framlagið sé óeðlilegt.

Þá er að spyrja: Með hvaða hætti er það óeðlilegt? Er það þá þannig að aðstandendur verkefnisins, sem er fólk af svæðinu, þrjú sveitarfélög, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, háskólinn og fleiri aðilar, séu að laga Ísland að Evrópusambandinu eða er um mútur að ræða eða perlur og eldvatn eins og ágætur félagi okkar sagði einu sinni (Gripið fram í.) í þessum stól. Ég bið þingmanninn að skýra þetta út fyrir mér.