140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða andsvar.

Mín skoðun er sú að tilgangur Evrópusambandsins sé að bæta ímynd sína hér á landi, gera hana jákvæðari í augum hins almenna borgara á Íslandi og ná þannig tökum á kjósendum þessa lands í þeirri von að þeir breyti afstöðu sinni þegar að því kemur að taka afstöðu til aðildarsamnings Íslands og ESB. Það er það sem ég tel að sé í gangi.

Það var ágætt að hv. þingmaður greindi svo skemmtilega þau svör og andsvör sem fóru fram á milli mín og hv. þm. Marðar Árnasonar. Þetta eru akkúrat aðferðirnar sem beitt er til að setja okkur í skrúfstykki í þessu máli. Ert þú Unnur Brá á móti þessu góða verkefni sem verður heima hjá þér? Hvernig á ég að svara þessari spurningu? Þetta er eins og að spyrja: Ertu hættur að berja konuna þína? Þetta er sama aðferðafræðin.

Mér fellur þetta ekki í geð. Ég skil ekki, hæstv. forseti, ef þetta er allt saman svona saklaust og tilgangurinn svona göfugur — til hvers þarf þá þessa gríðarlegu áherslu á kynningu og sýnileika? Af hverju sleppti ESB því ekki í þessum samningi að auglýsa í bak og fyrir hvað ESB dælir miklum peningum í þessi verkefni? Ef þetta er eingöngu til að styðja falleg og góð verkefni sem við öll getum svo sannarlega tekið undir að séu göfug, til hvers þarf þá að auglýsa það í bak og fyrir?

Að mínu viti er það einfaldlega til þess að bæta ímynd Evrópusambandsins í huga íslenskra kjósenda.