140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við Ísland innan ramma stuðningsaðgerðasjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB. Þannig hljóðar titill þessarar þingsályktunartillögu og er í sjálfu sér afar skýr, hann fjallar um ramma stuðningsaðgerðasjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB, og í þeirri stöðu er Ísland einmitt. Það hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og á þá rétt á stuðningi og með sama hætti er krafa frá Evrópusambandinu um að umsóknarríki uppfylli þau skilyrði sem Evrópusambandið setur á viðræðutímanum, þ.e. að búið sé að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu til að samningsköflum sé lokið.

Ég ætla fyrst aðeins að fara yfir ferli þessara viðræðna eða þessa aðildarferlis eins og það er sett upp af hálfu Evrópusambandsins. Það er í sjálfu sér þekkt og er ekkert sértækt gagnvart Íslandi. Það er bara eins og það hefur þróast hjá Evrópusambandinu hin síðari ár, þ.e. eftir að samningunum við Noreg lauk með því að Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu. Eftir samningaferli sem þá hafði verið í gangi breytti Evrópusambandið reglunum í vinnu sinni hvað þetta varðaði til að tryggja að slíkt gæti ekki gerst, eða draga eins og kostur væri úr líkum á því að umsóknarþjóð mundi fara í gegnum ferlið og fella síðan samningana.

Það hefur líka verið sett fram sem almenn krafa að land sæki ekki um aðild að Evrópusambandinu nema fullur vilji væri til að gerast aðili. Ég minnist þess frá minni ráðherratíð þegar sendinefndir frá Evrópusambandinu, eða frá einstaka ríkjum þess, voru að koma til að kynna sér þetta ferli á viðræðum, að menn áttu afar erfitt með að skilja að ríkisstjórnin hefði sótt um án þess endilega að ætla sér að gerast aðili. Eins og við vitum eru tveir flokkar í ríkisstjórn, annar er afar fylgjandi aðild og vill ganga eins hratt og mögulegt er í Evrópusambandið en hinn er andvígur því. Þessa stöðu áttu menn erfitt með að skilja og töldu reyndar fáránlega.

Ef við rennum yfir þetta svo menn átti sig á í hvaða ferli þetta er. Fyrsti þáttur í ferlinu, eftir að sótt hefur verið um aðild, er að farið er yfir löggjöf og reglur beggja aðila. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir löggjöf þess fyrir íslensku samningahópunum. Með sama hætti kynnir íslenski samningahópurinn löggjöf og stjórnsýslukerfi Íslands og að hve miklu leyti það fellur að löggjöf ESB. Það er mikilvægt að menn átti sig fullkomlega á því að það er löggjöf og regluverk ESB sem ræður og Ísland, eins og önnur ríki sem sækja um aðild, sækir um á forsendum Evrópusambandsins. Ríki sem sækja um aðild gera sér grein fyrir því að þau verða að laga sig að lögum og reglum Evrópusambandsins til þess að komast þar inn. Þetta er ekki á hinn veginn, að verið sé að semja, heldur snýst þetta um hvað Ísland þarf að gera og hversu hratt til að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setur.

Evrópusambandið hefur aldrei tekið við skilyrtri umsókn, það er eins gott að menn átti sig á því. Í umræðunum hér er stundum látið að því liggja að um sé að ræða samninga á milli tveggja jafnsettra aðila, en Evrópusambandið hefur einmitt lagt sérstaka áherslu á að svo sé ekki og það sé mesti misskilningur, heldur sé fyrst og fremst um aðildar- og aðlögunarferli að ræða.

Eftir að búið er að rýna og bera saman lög og reglur Evrópusambandsins og Íslands vinnur framkvæmdastjórnin skýrslu sem lýsir þeim staðreyndum sem þar birtast. Framkvæmdastjórnin sendir síðan alla skýrsluna til aðildarríkjanna, þar með talið þriðja hluta hennar þar sem framkvæmdastjórnin metur að hve miklu leyti lög og réttarframkvæmd á Íslandi fellur að löggjöf Evrópusambandsins. Fjórði hluti skýrslunnar hefur að geyma ráðleggingar framkvæmdastjórnarinnar um hvaða samningskafla er strax hægt að hefja viðræður um eða, eftir atvikum, ráðgjöf fyrir sérstakan fund um viðmið varðandi þá þætti sem Ísland þyrfti að uppfylla áður en samningaviðræður gætu hafist um tiltekna kafla.

Frú forseti. Ég er að lesa hér af blaði sem heitir „Ferill samningaviðræðna um hvern kafla“ sem var gefið út í upphafi samningaferilsins.

„Ætlunin með umræddum viðmiðum er að beina sjónum umsóknarríkisins að þeim helstu breytingum sem ríkið verður að ráðast í á vegferð sinni að fullri upptöku löggjafar ESB. Venjulega snúa slík viðmið að setningu nýrra laga, gerð áætlana, aðgerðaráætlana eða uppfyllingu skuldbindinga samkvæmt samningum ESB og umsóknarríkisins.“

Það er því alveg ljóst að á hverju stigi eru það kröfur og viðmið Evrópusambandsins sem ráða allri vegferð enda sagði aðalsamningamaður Íslands í þessum viðræðum, í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru, að það væri Evrópusambandið sem réði algjörlega þessari vegferð.

Síðan komum við að fjórða stiginu þar sem fulltrúar allra aðildarríkjanna innan vinnuhóps ráðs ESB um stækkun sambandsins fjalla um skýrslu framkvæmdastjórnarinnar og geta krafist útskýringar á innihaldi skýrslunnar og þeim viðmiðum sem framkvæmdastjórnin leggur til. Aðildarríkin ákveða annaðhvort að mæla með því að viðræður verði hafnar um samningskafla eða þá að leggja til viðmið sem umsóknarríkið þarf að uppfylla til að viðræður hefjist um tiltekinn kafla.

Frú forseti. Skýrt er kveðið á um það í hverju þrepi að það eru viðmið Evrópusambandsins sem þarf að uppfylla og það er algjörlega einhliða sett fram.

Á fimmta stiginu ákveður nefnd fastafulltrúa aðildarríkja Evrópusambandsins, COREPER, annaðhvort að hefja viðræður um tiltekna kafla eða setur viðmið fyrir því að viðræður geti hafist. Eftir ákvörðun sama hóps sendir forsætisríki ráðsins formlegt bréf til íslenskra stjórnvalda þar sem þeim er annaðhvort gefinn kostur á að uppfylla viðmið fyrir upphafi viðræðna eða senda samningsafstöðu sína varðandi tiltekinn kafla með það að markmiði að hefja formlegar viðræður um þann kafla.

Næst kemur: „Að uppfylla viðmið fyrir upphafi viðræðna (ef einhver viðmið eru sett).

Ísland uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í viðmiði fyrir því að viðræður geti hafist um tiltekinn kafla.“

Takið eftir því að þessi orðræða er alltaf einhliða enda hefur það legið fyrir frá byrjun að þetta voru einhliða viðræður, einhliða kröfur af hálfu Evrópusambandsins, ekki neinir samningar sem slíkir.

Áfram segir:

„Framkvæmdastjórnin metur hvort viðmið hafi verið uppfyllt og sendir mat sitt til ráðsins. Þegar ráðið hefur staðfest að Ísland hafi uppfyllt viðmið fyrir viðkomandi kafla býður forsætisríki ráðsins íslenskum stjórnvöldum að senda samningsafstöðu sína varðandi þann kafla sem um ræðir.

Framkvæmdastjórnin gerir drög að sameiginlegri samningsafstöðu aðildarríkja ESB, sem inniheldur venjulega ráðleggingar um viðmið fyrir ásættanlegri lokaniðurstöðu viðræðnanna, eða leggur til að viðræðum um tiltekinn kafla teljist lokið að sinni.

Til upplýsingar: Ólíkt viðmiðum fyrir upphafi viðræðnanna, sem snúa að nægjanlegri samræmingu við löggjöf ESB til að hefja megi viðræður, fjalla viðmið um lok viðræðnanna um hvort umsóknarríkið hafi að fullu samræmt löggjöf sína við löggjöf ESB, svo að af aðild geti orðið.“

Þannig heldur þetta áfram, frú forseti, og þegar kemur að fyrirsögninni „Að uppfylla viðmið um lok viðræðnanna (ef einhver viðmið eru sett)“ þá stendur:

„Ísland og ESB skiptast á endurskoðaðri samningsafstöðu einu sinni eða oftar, eftir því sem þörf krefur. Ísland uppfyllir skilyrði samningslokaviðmiða í sameiginlegri samningsafstöðu ESB. Framkvæmdastjórnin metur hvort skilyrði viðmiðanna um samningslok séu uppfyllt og gerir drög að sameiginlegri afstöðu aðildarríkjanna um lok viðræðnanna.“

Takið eftir, það er alltaf einhliða af hálfu Evrópusambandsins sem hver einasti þáttur er gerður. Síðan segir:

„Ráðið fjallar um mat framkvæmdastjórnarinnar og staðfestir að Ísland hafi uppfyllt viðmið fyrir lokum viðræðnanna, og samþykkir sameiginlega afstöðu aðildarríkjanna um lok viðræðnanna.“

Þetta er ferillinn sem er og hann er ætíð á forsendum Evrópusambandsins. Þau viðmið sem voru sett í upphafi eru þekkt og þessi ferill Evrópusambandsins varðandi inntöku nýrra aðildarlanda fékk lagastoð með svonefndum Kaupmannahafnarviðmiðum sem mat á því hvort nýtt umsóknarland sé samningstækt eða ekki.

Þetta fyrirkomulag var fyrst reynt á hinum tíu nýju aðildarlöndum sem komu inn árið 2002 og síðar við inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu og einnig á þeim löndum sem hafa komið í biðröðina síðar, svo sem Tyrkland, Króatía, Makedónía, Svartfjallaland og síðast Ísland. Þetta þýðir í raun að öll löndin þurfa að lúta sömu reglum um málsmeðferð, m.a. reglum um fjárhagslega aðstoð á samningaferlinu öllu. Þetta verklag var ekki í gildi þegar EES-löndin fengu aðild og því ekki raunhæft að bera það saman við samningaferlið þegar þau sóttu um og gerðust, nokkur þeirra, aðilar.

Það sem breyttist aðallega eftir árið 2000 var að löndum sem sækja um aðild eru settar hæfniskröfur sem geta verið algildar, en það leiðir til þess að samningar geta ekki hafist fyrr en úr hefur verið bætt, eða tilteknar eftir hverjum kafla fyrir sig, en löggjöf Evrópusambandsins er skipt upp í 35 samningskafla. Til að samningar um einstaka kafla geti hafist þarf umsóknarlandið að sýna fram á getu og vilja til að framkvæma löggjöf kaflans að mati Evrópusambandsins og sé svo ekki þá setur Evrópusambandið fram kröfur, svokölluð opnunarskilyrði eða „opening benchmarks“, sem þarf að uppfylla áður en samningar hefjast. Að því uppfylltu geta samningar hafist og samningum um kaflann lokið að því tilskildu að landið sýni fram á getu til að framkvæma ákveðið ákvæði samningsins við aðild. Sé svo ekki setur Evrópusambandið aftur fram kröfur, svokölluð lokunarmörk eða „closing benchmarks“, sem leggja framkvæmdakvöð á umsóknarlandið áður en samningi verður lokið um kaflann. Sjálfgefið er að samningur um aðild getur ekki orðið til fyrr en samningum um einstaka kafla er lokið. Við ákvörðun þeirra atriða sem að framan er greint frá gerir framkvæmdastjórnin tillögu til ráðsins um málsmeðferð, en ráðið tekur endanlega ákvörðun um hvernig brugðist er við málefnum umsóknarlandsins.

Um þetta var nákvæmlega getið þegar Evrópusambandið setti opnunarskilyrði á landbúnaðar- og byggðakaflann. Það var ekki síst vegna þess, ef það hafði sent spurningar til íslenskra stjórnvalda, sem var þá hlutverk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að svara, um hvernig þau ætluðu bregðast við kröfum Evrópusambandsins.

Í fyrsta lagi vil ég vitna til, með leyfi forseta, blaðs sem fylgdi þessari rýniskýrslu:

„Í kynningu sinni á öðru stigi rýningarinnar hafa íslensk stjórnvöld möguleika á að sýna fram á hvernig þau áforma að bregðast við athugasemdum eða veilum sem framkvæmdastjórnin dregur fram.“

Þá kom spurning frá Evrópusambandinu:

„Hvernig og hvenær ætlar Ísland að aðlaga sinn lagaramma hvað varðar lögbært stjórnvald, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila?“

Þessu svaraði ég þá sem ráðherra á þennan hátt:

„Við greiningu og samanburð á lagareglum og stjórnsýslu í landbúnaðarmálum á Íslandi við hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem hefur farið fram til þessa, hefur þegar komið fram verulegur munur milli aðila á lögum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Umbreyting frá hinu íslenska fyrirkomulagi á þessu sviði mun tvímælalaust kalla á verulegar breytingar á lagaumhverfi og aukin umsvif við stjórnsýslu, skýrslugjöf, eftirlit og fjölgun stofnana sem ekki er nauðsynleg til að framkvæma þá landbúnaðarstefnu sem hefur gilt og gildir í dag.

Við undirbúning þeirra atriða sem framkvæmdastjórnin spyr um, þ.e. ákvörðun um lögbært stjórnvald, sem fer með greiðslur til landbúnaðar, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila, kemur fram að aðlaga þarf ramma íslenskra laga að regluverki ESB. Stefna íslenskra stjórnvalda er skýr, að ekki verði ráðist í neina aðlögun að regluverki ESB fyrr en staðfestur samningur um aðild liggur fyrir. Auk þess er það álit stjórnvalda að vegna smæðar landsins sé óþarfi að setja á fót það stofnanakerfi á Íslandi ef til aðildar kemur.

Af áðurnefndum ástæðum mun Ísland ekki hefja undirbúning að skipulags- og lagabreytingum né aðlaga sinn lagaramma fyrr en að lokinni samningsgerð, takist samningar um aðild og fullgildingu aðildarsamnings að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi og samþykkt af hans hálfu.“

Áfram var spurt af hálfu Evrópusambandsins: „Hver er í dag staða mála varðandi stofnun greiðslustofu? “

Því svaraði ég sem ráðherra:

„Með hliðsjón af því að það ráðist í samningi milli Íslands og Evrópusambandsins hvert fyrirkomulag greiðslna í landbúnaði þurfi að vera er það ákvörðun stjórnvalda á Íslandi að hefja ekki aðlögun að regluverki ESB fyrr en í fyrsta lagi að loknum samningum um aðild og staðfestingu þeirra. Því hefur enginn undirbúningur farið fram varðandi þau atriði sem nefnd eru.“

Ég nefni þetta hér, frú forseti, og mun svo í seinni ræðum mínum fara nánar yfir þetta ferli, því að bréfið sem fylgdi rýniskýrslu af Íslands hálfu var víst aldrei sent til Brussel en hafði samt þau megináhrif að þau skýru skilyrði að ekki yrði hafin aðlögun með íslenskan landbúnað á meðan á þessu samningsferli stæði voru ein meginástæðan fyrir því að settir voru opnunarskilmálar á landbúnaðarkaflann.

Frú forseti. Ég kem síðan að fleiri atriðum sem lúta að (Forseti hringir.) því hvernig þeim styrkjum sem við ræðum hér er beinlínis ætlað að koma, og okkur gert skylt að taka við þeim, (Forseti hringir.) til að hægt sé að undirbúa það stofnanakerfi og þær breytingar sem við verðum að ráðast í til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins á hverju stigi.