141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta, ég hef ekki gert það áður. Ég spyr: Af hverju ná menn ekki samkomulagi um þau mál sem menn ætla að ná fram (ÁI: Spurðu þingflokksformanninn.) fyrir lok kjörtímabils?

Ég tek undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um gott samkomulag. Til dæmis er samkomulag um fjögur síðustu málin á dagskrá þingsins í dag, úr efnahags- og viðskiptanefnd, sem allir þingmenn í þeirri nefnd standa að. Það er heilmikið gott samkomulag í nefndum og ég skil ekki af hverju menn geta ekki náð samkomulagi við þingflokksformenn sem mér skilst að sé ekki einu sinni rætt við. Ég skora á frú forseta að ræða við þingflokksformenn fyrr en seinna um það hvaða mál eigi að taka fyrir. Ég sé til dæmis á dagskránni fyrir daginn í dag að það vantar frumvarpið um kvótann og fleiri mál sem ríkisstjórnin hefur verið áfram um. Ég held að menn þurfi að fara að taka á þessu og komast (Forseti hringir.) að samkomulagi.