141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki eins ánægður með ræðu hv. þingmanns. Hann gefur í skyn að þjóðin hafi ekkert mikinn áhuga á að greiða atkvæði um stjórnarskrána af því að hún sé of sammála tillögunum. Ef það væru þátttökuskilyrði, segjum 50% eins og í minni tillögu sem hér er tekið eftir að þessi tillaga er sniðin eftir, mundi þjóðin vita það og storma á kjörstað til að greiða atkvæði.

Varðandi mikilvægt atriði eins og auðlindaákvæðið spyr ég: Af hverju var það ekki í tillögum formannanna? Telja menn það mikilvægara en til dæmis að nefna Hæstarétt í stjórnarskránni? Hann er ekki nefndur í núverandi stjórnarskrá. Telja menn ekki mikilvægt að Hæstiréttur sé nefndur? Svo eru allt í einu komnar tvær breytingartillögur og ég spyr hv. þingmann: Geta þingmenn þá valið hvort viðkomandi breytingartillaga fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki eftir því hvort þeir telji að hún njóti fylgis hjá þjóðinni eða ekki? Þetta er alveg með ólíkindum. Þingmenn geta þá sest niður og sagt: Heyrðu, þetta held ég að sé óvinsælt hjá þjóðinni og þá látum við Alþingi greiða atkvæði. (MSch: Hvort breytingarákvæðið?) Já, ég er að tala um það.