141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir ferlið. Ég er samt ekki alveg með það á tæru. Fyrst flytja formenn tveggja stjórnmálaflokka tillögu ásamt formanni Bjartrar framtíðar, sem er líka stjórnmálaflokkur, og síðan er lögð fram breytingartillaga við þá tillögu frá formönnum þingflokka viðkomandi flokka. Ég velti fyrir mér hvernig standi á því að sú tillaga er ekki flutt í nafni formanna flokkanna sjálfra. Er einhver óeining innan flokkanna tveggja, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, um það? Var það ekki rætt í þingflokkunum? Voru formennirnir ekki viðstaddir þegar ákveðið var að formenn þingflokkanna flyttu breytingartillögu? Mér finnst þetta einhvern veginn ekki vera í takt. Ég er ekkert hrifinn af flokksræði og það er kannski allt í lagi að formenn þingflokkanna séu þversum við formenn flokkanna en mér finnst að það þurfi að koma fram.

Svo er það skrýtna hugsunin um breytingar með tvennum hætti sem ég vil spyrja hv. þingmann um þar sem hún hefur kannað málið. Er það svo að þegar þingmenn ákveða að flytja breytingu við stjórnarskrána, sem þeir vilja helst ekki að fari til þjóðaratkvæðagreiðslu, láti þeir þingið um að ákveða, þ.e. láti næsta þing taka á máli sem þeir telja að eigi ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni svo þeir geti haft það innan sinna raða, ef maður má orða það þannig? Nú er ég mjög hlynntur því að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána sína og þær hugmyndir eru eiginlega teknar frá mér að einhverju leyti, að þjóðin geti greitt atkvæði um stjórnarskrána sína, þannig að ég er mjög óhress með að hafa bæði ákvæðin inni.