141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún ræddi aðallega um breytingartillögu sína sem hún flytur með mjög óvenjulegum hætti við breytingarfrumvarp formannanna, formanna tveggja stjórnmálaflokka, Vinstri grænna og Samfylkingar, auk Bjartrar framtíðar. Ég hef nú séð ýmislegt sniðugt í gegnum tíðina en sjaldan séð eins mikla klæki og felast í þessu, því að þetta gerir að verkum að greiða þarf atkvæði um alla stjórnarskrána eins og hún leggur sig sem breytingartillögu án nokkurrar greinargerðar, án nokkurs hlutar. Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði í dagblöðunum í dag að þetta væri tundurskeyti sem við erum að ræða hér. Nú þurfum við í rauninni að fara að ræða þessa breytingartillögu og það tekur væntanlega mikinn tíma frá þinginu.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er tilgangurinn sá að stöðva stjórnarskrárbreytingar? Líka þá breytingu sem formenn flokkanna fluttu? Sem ég get á vissan hátt samþykkt því að þá er verið að gera mögulegt á næsta kjörtímabili, jafnvel strax eftir að þing kemur saman, að gera breytingar á stjórnarskrá. Vill hv. þingmaður ekki sjá svoleiðis breytingu? Vill hún sjá málið dautt? Vill hún að í gang fari mikil umræða á þingi um þetta nýja mál?

Það er heilmikið af atriðum í þessari stjórnarskrá sem er órætt. Ég hef minnst á mál eins og Hæstarétt sem vantar inn í stjórnarskrána. Menn hafa komið með breytingartillögu um auðlindaákvæðið o.s.frv. Vill hv. þingmaður með þessum klækjabrögðum eyðileggja nýja stjórnarskrá þannig að henni verði ekki breytt fyrr en í lok næsta kjörtímabils?