149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

alþjóðasamvinna og staða ungs fólks.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þau voru mikilvæg og skýr, skilaboðin sem við fengum yfir morgunkaffinu í Fréttablaðinu í dag. Hátt í 300 ungir einstaklingar úr öllum áttum tóku höndum saman og keyptu auglýsingu til stuðnings frjálsu og alþjóðasinnuðu samfélagi. Yfirskrift auglýsingarinnar er: „Ekki spila með framtíðina okkar.“ Síðan segir: „Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“

Það er orðið nokkuð ljóst að við sem trúum á frjálst og opið og alþjóðlegt samfélag verðum að standa saman, þvert á pólitískar línur, og sporna þannig gegn þeim rangfærslum og þeim efasemdafræjum sem hafa fengið að stýra umræðunni um þátttöku okkar í alþjóðasamfélaginu allt of lengi.

Sáðmenn þessara efasemdafræja eru reyndar strax komnir á kreik og væna þessa ungu einstaklinga um að vera teflt fram í áróðursskyni þegar staðreyndin er sú að þetta unga fólk ákvað að láta sig framtíðina varða. Það steig fram með þessum hætti.

Þessir einstaklingar eru ekki gluggaskraut, líkt og sagt hefur verið um ungt, framsýnt og hæfileikaríkt fólk sem kann að ógna tilvist þröngsýni og afturhalds. Unga fólkið í auglýsingunni var ekki tilneytt heldur steig það fram á eigin forsendum og kostnað vegna þess að það er orðið þreytt á þessu karpi, síendurteknum rangfærslum og að ekki sé hlustað á það.

Við skulum ekki falla í þau í þá gryfju, enda sáum við hvað gerðist t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Við viljum ekki að það gerist hér að sundurlyndisfjandinn og fordæmalaus uppgangur þjóðernispopúlista núna á 21. öldinni nái hér fótfestu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig ætlar forsætisráðherra, þaulreyndur stjórnmálamaður, að beita sér þannig að hlustað verði betur á raddir ungs fólks? Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að beita sér sem (Forseti hringir.) forystumaður ríkisstjórnarinnar svo þessar úrtöluraddir um þátttöku Íslands í dýrmætu alþjóðasamstarfi nái ekki yfirhöndinni með vafasömum áróðri?