150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þessum viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er sem betur fer á þeim nótum sem ég vonaði að skilningur stjórnvalda lægi. Staðan sem er uppi í dag er sú að fulltrúar Reykjavíkurborgar virðast túlka samkomulagið með allt öðrum hætti. Ég held að fyrsti tíminn sé bestur til að leiða þann mismunandi skilning í jörð þannig að hljóð og mynd fari saman í þessu máli. Bara núna um helgina voru kynnt drög að matsáætlun borgarlínu á netinu og þar eru skilaboðin þau að það á að þrengja að umferð einkabílsins, fækka akreinum á Suðurlandsbraut svo dæmi sé tekið, gera Hverfisgötu að einstefnugötu og ég veit ekki hvað og hvað, loka allri umferð í kringum Hlemm þannig að í augnablikinu fer ekki saman hljóð og mynd. Það er mikilvægt að þetta komist á hreint.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í samhengi við frumvarp hans um stofnun hlutafélags til að halda utan um þessar framkvæmdir hvort það hafi komið til skoðunar að stofna félagið en færa Keldnalandið (Forseti hringir.) ekki inn í félagið fyrr en skipulag hefur verið klárað af hendi Reykjavíkurborgar. Sporin hræða hvað varðar skipulagsleg samskipti við Reykjavíkurborg í samgöngumálum.