131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:47]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mál sem skiptir mjög miklu fyrir stöðu bænda í þjóðfélaginu sem ég held að varði einnig mjög mikið hin ýmsu landsvæði hér á landi, þ.e. hvernig á þessu máli er haldið og með farið.

Ég hef litið svo á, hæstv. forseti, að Lánasjóður landbúnaðarins hafi á undanförnum árum og áratugum leitast við að tryggja bændum ákveðið öryggi og ákveðið jafnrétti varðandi lánafyrirgreiðslu og hafi í raun verið þáttur í því að viðhalda og leitast við að viðhalda byggð í landinu. Þess vegna held ég að það sé rétt að staldra við og skoða þetta mál mjög gaumgæfilega, fara varlega í það. Ég spyr t.d. hæstv. ráðherra: Hvaða stærðir í fjármunum erum við hér að tala um? Hvað mun þetta þýða í tilfærslum? Ef það gengur eftir að færa þetta í Lífeyrissjóð bænda, hvaða réttindaaukning verður þar? Hvernig verður hún útfærð?

Það er auðvitað afar sorglegt að horfa á niðurstöðuna varðandi stöðu bænda í lífeyrissjóði sem kemur mjög skýrt fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Við erum að horfa þar á greiðslur til bænda sem eru hæstar 42 þús., og ætli meðalgreiðslurnar séu ekki í kringum 20 þús. Við megum ekki gleyma því, og bændur þurfa að huga að því og við öll að þegar við fáum greiðslur út úr lífeyrissjóði sem eru svona litlar skerða þær samt bætur úr almannatryggingakerfinu með 45% reglu. Hvað erum við í raun og veru að færa bændum? Ég held að þetta mál þurfi mjög gaumgæfilegrar athugunar við áður en gengið verður fram í því.