131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:52]

Katrín Ásgrímsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins hefur verið þýðingarmikil fyrir bændur í gegnum tíðina. Hann hefur gegnt sama hlutverki og atvinnuvegasjóðirnir gerðu en hann er nú einn eftirlifandi af þeim sjóðum og í mörg ár hefur verið vaxandi óánægja með starfsemi sjóðsins. Allir sem stunda búvöruframleiðslu borga til sjóðsins og er sá skattur nýttur til niðurgreiðslu lána.

Í því hefur falist ákveðin samhjálp, það er rétt hjá hv. þingmanni, en er mismunun kannski betri lýsing á ástandinu?

Hæstv. forseti. Sá hópur bænda sem hefur lítil eða engin viðskipti við þennan sjóð fer ört stækkandi. Það er stór hópur sem er ekkert að framkvæma. Hins vegar er stór hópur að framkvæma en hefur ekki nokkra möguleika á lánum því að reglur sjóðsins eru þannig að þær passa ekki inn í veruleika þessara bænda. Síðan er stór hópur bænda sem hefur kosið að hætta viðskiptum við sjóðinn þar sem völ er á hagstæðari lánum annars staðar. Þannig er nú staðan.

Allir þessir bændur greiða allt að 0,8% af tekjum sínum til að niðurgreiða lán til þeirra bænda sem eftir standa, þeirra fjósbygginga, þeirra dráttarvéla- og jarðarkaupa. Er þetta það jafnrétti sem á að bjóða bændum upp á?

Bændum landsins er þessi staða fullljós. Á nýafstöðnu búnaðarþingi var ályktað mjög eindregið í þá átt að leggja sjóðinn niður, og þeir aðilar og fagmenn sem farið hafa yfir málið og hafa skilað skýrslu komast að sömu niðurstöðu.

En hv. þingmenn Vinstri grænna vilja ekki hlusta á vilja bænda sem liggur skýr fyrir. Ef ekki verður aðhafst strax mun eigið fé sjóðsins smám saman rýrna og þar með staða bænda. Ráðstöfun eigna sjóðsins er síðan sérstakt mál og það er mikilvægt að fá sem mest fyrir eignir hans og að tryggja hagsmuni lántakenda. Þá þarf að vinna hratt og örugglega í málinu eins og landbúnaðarráðherra er að gera en hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vinna hér gegn framgangi.