131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[11:01]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. landbúnaðarráðherra að hann muni beita sér fyrir því að skoða fleiri valkosti í framtíð sjóðsins eða verkefnum hans, m.a. þá hugmynd sem ég lagði hér upp, að hann yrði rekinn samhliða lífeyrissjóðnum eða sem slíkur valkostur. Ég skora á ráðherra að beita sér enda hef ég talið að hann hefði mikinn skilning á stöðu bænda og vilja til að Ísland sé byggt upp sem víðast af sjálfseignarbændum. Þá er ekki sama hvernig að er farið.

Ég er ekki að leggja til að halda öllu í óbreyttri mynd, síður en svo, enda benti ég á það. Ég tel að sjóðurinn hafi kannski verið einum um of seinn að bregðast við breyttum aðstæðum á fjármálamarkaðnum en betra er að bregðast við seint en aldrei.

Það er mesti misskilningur að halda að andvirði sjóðsins geti runnið inn í Lífeyrissjóð bænda og aukið lífeyrisréttindi. Þau eru einungis bundin við það sem hefur verið greitt inn í sjóðinn af einstaklingunum. Þau geta í besta falli orðið til þess að þau verði ekki skert. Menn mega ekki rugla hér saman tveimur ólíkum þáttum.

Frú forseti. Ég vitnaði til þess að ekki hafi verið haft enn þá fullt samráð við bændur og vísa til samþykktar búnaðarþings. Ég leyfi mér að vitna til hennar, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing 2005 hefur fjallað um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins. Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði til að fara yfir málefni sjóðsins hefur ekki lokið störfum og eftir er að leggja mat á nokkur atriði sem lúta að því hvernig þörf landbúnaðarins fyrir lánsfé verði best mætt á komandi árum.“

Þetta er upphaf bókunar á búnaðarþingi. Starfshópurinn hafði ekki lokið störfum þegar þetta var gert.

Auk þess miðar skýrsla starfshópsins nánast bara að úttekt á einni lausn, þ.e. að leggja niður og selja sjóðinn. Það finnst mér vera mjög þröngur vinkill og fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) mun skoða fleiri möguleika í að tryggja hagsmuni bænda hvað varðar Lánasjóð landbúnaðarins.