131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:17]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ljóst er að ríkið er að opna í lagaheimild möguleika á að hækka framlag sitt, en það er auðvitað alveg ljóst að það eru ekki stórkostlegar líkur á því að sjóðurinn dafni sérstaklega nema eitthvað mikið komi til af því að nú eru fleiri sem taka lífeyri út úr sjóðnum en greiða í hann. Aldursbreytingarnar í stéttinni eru líka þannig að aldurinn er alltaf að hækka og þeim að fækka sem standa undir sjóðnum á meðan byrðarnar aukast talsvert mikið.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur að líklegast sé að ríkið komi inn með aukið framlag í meira mæli en bændurnir. Það er varla þannig að þeir bændur sem starfa í dag og standa undir sjóðnum fari að setja einhverjar stórar fjárhæðir í sjóðinn. Maður á mjög erfitt með að sjá það. Er það ekki líkleg niðurstaða að ríkið komi með veruleg framlög en bændurnir muni ekki hækka framlög sín svo miklu nemi?