131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:47]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegur forseti. Við ræðum um Lífeyrissjóð bænda og málefni þeim tengd. Inn í það tengist mál sem tekið var fyrir í utandagskrárumræðu um Lánasjóð landbúnaðarins og það verk að leggja hann e.t.v. niður og jafnvel ráðstafa fjármununum í Lífeyrissjóð bænda.

Til að koma í veg fyrir allan misskilning vegna þess sem ég kann að segja síðar í ræðu minni þá tel ég virkilega þarft verk að takast á við að reyna að laga stöðu bænda í lífeyrismálum og að lífeyrir þeirra verði þeim einhvers virði og skipti máli í framtíðinni. Ég held að rétt sé að við förum þannig í það mál að við skoðum hvernig lífeyrisgreiðslur nýtast lífeyrisþegum í raun. Þegar við skoðum lífeyrismálin í heild sinni skerða greiðslur úr lífeyrissjóði bætur úr almannatryggingum. Segjum sem svo að okkur takist að hækka meðalgreiðslur til bænda með lagfæringum eins og þeim að setja eignir Lánasjóðs landbúnaðarins í Lífeyrissjóð bænda og hækka meðalgreiðslurnar frá því sem nú er, ætli þær liggi ekki einhvers staðar á bilinu 17–25 þús. kr. á mánuði þó ég hafi ekki nákvæmar tölur um það. En í svari sem hæstv. fjármálaráðherra gaf við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur kemur fram hvernig dreifing meðalgreiðslna úr Lífeyrissjóði bænda er og tölurnar eru ekki háar. Það eru samtals 954 sem fá 5.330 kr. á mánuði. Það eru 923 sem fá 14.800 kr. á mánuði, 547 sem fá rúmar 24.000 kr. á mánuði og 180 sem fá 34.000 kr. tæpar að meðaltali á mánuði. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsir úr stól sínum að meðaltalið sé 10–15 þús. kr. Það kann vel að vera að það sé rétt ef tekið er tillit til töflunnar sem ég var að lesa upp úr og tölunum svo deilt upp.

Þess heldur er ástæða til að athuga hvað þetta skiptir bændur miklu máli. Segjum að innlögn á fjármunum Lánasjóðs landbúnaðarins mundi hækka meðaltalsgreiðslurnar um helming, þær mundu tvöfaldast og menn væru ekki að fá 15 þús. kr. að meðaltali heldur 30 þús. kr. Þá er reglan sú í almannatryggingakerfinu að sá sem fær greiðslur úr lífeyrissjóði verður fyrir skerðingu í almannatryggingakerfinu eftir 45% reglu. Menn fá því aldrei í eigin vasa nema 55% af því sem úr lífeyrissjóði kemur meðan verið er að skerða bætur almannatrygginga aðrar en grunnlífeyrinn sem situr eftir þegar um lífeyrisgreiðslur er að ræða. Grunnlífeyrinn er um 23 þús. kr. í dag. Þá sitjum við uppi með það að með því að setja auknar greiðslur í Lífeyrissjóð bænda með þessu lagi og með óbreyttu almannatryggingakerfi og óbreyttri skerðingarreglu að helmingurinn af því rynni til ríkisins aftur vegna þess að það kæmi niður á skerðingu bótanna af því að greiðslur til bænda eru hvort sem er svo óskaplega lágar og réttindi þeirra allt of lítil.

Þetta vildi ég segja í upphafi ræðu minnar vegna þess að ég held að nauðsynlegt sé að við gerum okkur grein fyrir hvað við erum að tala um þegar við lýsum vilja okkar til að laga stöðu bænda að því er varðar lífeyrisréttindi þeirra. Ég held að okkur greini ekki á um að vilja takast á við það, þó ég geti sagt það úr þessum ræðustól sem fyrrverandi forustumaður í samtökum sjómanna að ólíkt höfumst við að, ég og hæstv. fjármálaráðherra, þegar við lítum til þess sem við ræddum varðandi Lífeyrissjóð sjómanna á sínum tíma og réttindi þar. Hæstv. fjármálaráðherra vék að því í ræðu sinni áðan að nýlega hefði lögum um Lífeyrissjóð sjómanna verið breytt og þau gerð eins og lögin í almennu lífeyrissjóðunum. Það var ekki einu sinni hægt að halda eftir því að hægt væri að halda lögveði fyrir lífeyrisréttindum inngreiðslum í skipum til að reyna að tryggja að skipinu væri ekki siglt úr landi án þess að upp væri gert í lífeyrissjóð. Stjórnarflokkarnir gátu ekki fallist á að sú trygging sæti eftir til handa sjómönnum. Áður var búið að svíkjast undan því að standa við 60 ára regluna sem var félagsmálapakki frá árum áður. Þar skortir 1,5 milljarða í Lífeyrissjóð sjómanna og þegar Fiskveiðasjóður Íslands var lagður niður fengu sjómenn ekki neitt af þeim fjármunum í lífeyrissjóðinn þó að greitt hafi verið í Stofnfjársjóð fiskiskipa af óskiptu aflaverðmæti áratugum saman.

Ég rifja þetta upp en lýsi því enn á ný yfir til að það valdi ekki misskilningi að ég mun styðja það að reyna að lagfæra stöðu bænda að því er varðar lífeyrissjóði. Ég er hins vegar að benda á að það er ekki beint samhengi milli þess að auka lífeyrisréttindi og auka rauntekjur bændanna vegna þess að ríkið tekur 45% af rauntekjuaukningunni miðað við hversu lágar greiðslur bændur eiga rétt á úr lífeyrissjóði. Það þarf miklu meira en tvöfalda þær til að bændur fari að halda meiru eftir en 55% því að almannatryggingabætur þeirra, ellilífeyririnn, tekjutengingin, sérstök heimilisuppbót og sérstök tekjutrygging skerðast með 45% reglu eins og lögin eru í dag. Um þetta höfum við í Frjálslynda flokknum flutt ákveðið mál í hv. Alþingi, um að réttindagreiðslur úr lífeyrissjóði fólks undir 50 þús. kr. á mánuði skerði engar samsettar lágmarksbætur ellilífeyrisþega. Ef sú regla væri tekin upp mundi auðvitað hver einasti þúsundkall sem settur væri í aukin lífeyrisréttindi stéttar eins og bænda, sem eru með svo lág meðaltalsréttindi í lífeyrissjóði sínum, skipta verulegu máli.

Þetta held ég að við þurfum að hafa hugfast þegar við ræðum hvernig við viljum raunverulega takast á við að laga stöðu bænda að því er varðar stöðu þeirra til ellilífeyris og úr lífeyrissjóði þeirra og ég geri ekki lítið úr því að vandi bænda varðandi lífeyrissjóð þeirra er mikill.

Þegar talað er um að taka upp aldurstengda réttindainnheimtu og aldurstengdar bætur drögum við úr samtryggingu í lífeyrissjóðum. Eins og menn vita höfum við lengst af verið með söfnunarsjóði með algerri samábyrgð en á seinni árum hafa menn verið að setja upp svokallaðar aldurstengdar bætur. Það þýðir að verið er að horfa til þess hvernig greiðslurnar koma inn og verið að draga úr samábyrgðinni.

Ég held að skoða þurfi það sérstaklega þegar við tölum um Lífeyrissjóð bænda, miðað við aldurssamsetninguna sem þar er, hvað það muni þýða gagnvart bændum þegar við förum þá leið sem verið er að leggja til í frumvarpinu að aldurstengja réttindaáhersluna. Við þurfum að skoða það og málið þarf að skoða frá mörgum hliðum.

Eins og fram hefur komið í umræðunni greiða bændur af takmörkuðum upphæðum, þ.e. þeir hafa fengið endurgreiðslur ef þeir hafa verið umfram eitthvað ákveðið. Í upphafi starfstíma lífeyrissjóðanna greiddu aðrar stéttir af minna en heildarlaunum sínum og sjómenn t.d. fyrst af hálfri tryggingu og síðan af heilli kauptryggingu, en kauptrygging var náttúrlega bara brot af launum sjómanna þá. Þannig var staða sjómanna þegar við fórum í okkar harða verkfall 1985 til að fá greiðslu í lífeyrissjóðina af öllum launum. Það þurfti mikið átak til að ná því inn og tókst að semja um það með aðlögun á tveimur árum. Frá 1987 hafa því sjómenn fengið greiðslur í lífeyrissjóði sína af öllum launum.

Hitt er algerlega rétt að þjóðfélagið okkar er að breytast. Við erum almennt komin með séreignarsparnað í lífeyrissjóðum til viðbótar við sameiginlega sparnaðinn. Ég tel að það sé af hinu góða en ég er hins vegar mjög hugsi yfir aldurstengdu réttindunum vegna þess að þau draga úr samhjálparreglunni og gildi söfnunarsjóða með samábyrgð. Ég sé ekki neina útlistingu á því í frumvarpinu hvernig það kemur sérstaklega fram varðandi Lífeyrissjóð bænda sem við fjöllum um. Ég held að nauðsynlegt sé að fá fram ýmsar upplýsingar um aldursdreifingu í Lífeyrissjóði bænda og réttindaáherslu sem mundi breytast. Ég treysti því auðvitað að það mál verði skoðað sérstaklega í nefnd og menn skoði líka alveg sérstaklega þar hvaða raunávinning bændastéttin fengi við að tvöfalda réttindainnvinnslu hennar í lífeyrissjóði jafnvel með því að leggja inn eign Lánasjóðs landbúnaðarins. Hvað mundi gerast miðað við það að ríkið tekur til sín með skerðingu ellilífeyris og samþykktra bóta úr almannatryggingakerfinu 45% af öllum ávinningi sem af þessu yrði.

Þetta þurfa menn allt saman að hafa í huga og hafa undir til að við séum raunverulega að laga stöðu bændastéttarinnar í lífeyrismálum. Það þarf vissulega að gera og ég lýsi mig samþykkan því að vinna að því og reyna að efla stöðu þeirrar stéttar í lífeyrismálum. En ég vil að við skoðum málið algerlega upp úr og niður úr eins og það er í raunveruleikanum og hvernig það tengist m.a. þeim skerðingarreglum sem snúa að almannatryggingakerfinu.

Ég held að við verðum að hafa þetta allt undir því það er til frekar lítils að vera kannski að auka réttindi í Lífeyrissjóði bænda eins og hann er nú um 10 þús. kr. ef af þeim renna svo 4.500 kr. beint til ríkisins aftur vegna skerðingarákvæða á bótum úr almannatryggingasjóðum. Ég ítreka enn á ný að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram sérstakt mál um að lífeyrisréttindi skerði ekki bætur í almannatryggingakerfinu. Ég held að einmitt það mál gæti skipt afar miklu fyrir stétt eins og bændur sem eru með jafnslök réttindi og sjást á því svari sem ég vitnaði til áðan varðandi stöðu þeirra og greiðslur úr lífeyrissjóðnum eins og þær birtast í dag þar sem upplýst er að enginn fái meira en 42.504 kr. úr sjóðnum, að það sé hæsta greiðslan sem kemur til bænda úr sjóðnum, þ.e. sem tekur til almenns lífeyris en hæsta greiðsla þegar litið er til örorkubóta er tæplega 53 þús. kr. Þessar staðreyndir þurfum við allar að hafa í huga þegar við tölum um stöðu bændastéttarinnar í Lífeyrissjóði bænda sem stendur mjög illa. Við skulum heldur ekki gleyma því að með þessu frumvarpi er verið að heimila viðbótarskerðingar á þeim réttindum sem bændur hafa í dag. Það er m.a. gert með því að skerða réttindi varðandi makalífeyri, stytta hann úr þremur árum í tvö, og með því að lækka margföldunarstuðulinn.

Hins vegar er alveg ljóst að miðað við stöðu sjóðsins, aldursdreifingu og ábyrgð þá er hann mjög illa staddur gagnvart framtíðarskuldbindingum sínum og nær engan veginn að uppfylla hina almennu reglu lífeyrissjóðanna sem sett var í lög um starfsemi lífeyrissjóða á sínum tíma um að lífeyrissjóður þurfi að eiga fyrir skuldbindingum sínum framreiknað miðað við ákveðnar forsendur.

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þetta nægja við 1. umr. málsins en hvet til þess að málið verði skoðað gaumgæfilega. Það verði skoðað mjög vandlega hvað það þýðir þegar greiðslur aukast út úr sjóðnum og hver verður þá raunverulegur ábati bændanna sjálfra. Það þýðir lítið að færa til krónur og aura og eignir ef 45% af því öllu renna aftur í ríkissjóð vegna skerðingarákvæða almannatrygginga.