131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:07]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum tekið þessa umræðu áður að hækka skerðingarmörkin hjá Tryggingastofnun. Þar rekumst við á þann vanda að ef við gerum það er lífeyrisþeginn oft og tíðum kominn með betri lífskjör en sá sem er vinnandi, sérstaklega fólk með lágar tekjur. Því miður er fullt af fólki í þjóðfélaginu með tekjur undir 120 þús. kr. á mánuði, t.d. þeir sem vinna samkvæmt Eflingartaxta. Það fólk kann að lenda í þeirri stöðu að vera með verri lífskjör en lífeyrisþegar sem voru á þeim taxta og það er talið mjög óeðlilegt, sérstaklega þegar sá sem er með verri lífskjör er að borga lífeyri til hins.