131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys.

245. mál
[14:06]

Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að vita til þess að uppi séu áætlanir um að fara í sérstaka reiðvegi og gera ráð fyrir undirgöngum þeim tengdum. Þetta er allt af hinu góða.

Þeir fjármunir sem hafa farið í undirgöng, fyrir rásir fyrir búfé eins og ég hef kallað það, hafa verið teknir af svokölluðum öryggisliðum Vegagerðarinnar. Fyrst og fremst er litið á þetta sem öryggisatriði. Það sem ég er að kalla eftir er að kortleggja þurfi í umdæmi Vegagerðarinnar hvert einasta svæði og setja upp áætlun hvar þörfin er, hversu brýn hún er, setja upp áætlun og setja upp forgangsröð þannig að við allar nýframkvæmdir og endurbætur komi þetta sjálfkrafa inn þar sem ekki er á næstunni að forgangsraða slíkum verkefnum.

Mér er því algjörlega ómögulegt að segja til um hvað þetta muni kosta en það væri örugglega hægt að leita eftir því og fá bráðabirgðatölur eða mjög fljótlega útreiknað hjá vegagerðarmönnum og umdæmisstjórum hvað þetta mundi verða í heildina. En þetta þarf að vinna faglega og er ekki eitthvað sem við gerum innan eins tímabils samgönguáætlunarinnar. Svona átak hlýtur að ná yfir lengri tíma. Að mínu mati þarf að vinna mjög markvisst að þessu, en ég get ekki nefnt upphæðir.

Það borgar sig að hafa þetta inni strax við upphaf framkvæmda því að það er mun dýrara og miklu meira óhagræði að því að fara í þessar framkvæmdir eftir á.