131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:09]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, með síðari breytingum, sem lagt er fram af allsherjarnefnd.

Ég vil í upphafi máls míns geta þess að nefndin hefur lagt í dálitla vinnu við þetta mál en nefndarmenn eru þó sammála um að eftir að frumvarpið kemur fram sé við því að búast að fram muni koma ýmis sjónarmið vegna efnisatriða í frumvarpinu og af þeim sökum var fyrir fram ákveðið af nefndarmönnum að málið yrði tekið til frekari umræðu í allsherjarnefnd eftir 1. umr. þess.

Í því sambandi mun nefndin hafa frumkvæði að því sjálf að kalla eftir sjónarmiðum frá helstu hagsmunaaðilum og leggja að nýju mat á efnisatriði málsins þegar þau sjónarmið hafa verið vegin og metin.

Ég vil um efnisatriði frumvarpsins leyfa mér að vísa til 1. og 2. gr. þess eða þessara þriggja greina sem frumvarpið samanstendur af. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er það fyrst og fremst í tilefni af breytingum sem gerðar voru á skaðabótalögunum með lögum nr. 37 frá árinu 1999 sem þessu máli er hér teflt fram.

Almennt höfðu þær breytingar sem gerðar voru með tilgreindum lögum mikla réttarbót í för með sér en hins vegar voru þar um leið lögleiddar ýmsar frádráttarreglur vegna greiðslna frá þriðja aðila sem hafa komið nokkuð hart niður á tveimur hópum. Við þessu er frumvarpinu ætlað að bregðast. Annars vegar eru það þeir einstaklingar sem eru alvarlega slasaðir, sem hér er verið að fjalla um, og síðan hins vegar ekkjur og ekklar.

Ef við tökum til að byrja með fyrri hópinn til umfjöllunar þá segir í greinargerð að alvarlega slasað fólk sem metið er með meira en 50% varanlega örorku eigi rétt á örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem verst eru settir eiga einnig rétt á ýmiss konar viðbótargreiðslum, svo sem tekjutryggingu, tekjutryggingarauka, heimilisuppbót, bensínstyrk o.fl. Fyrir breytinguna árið 1999 voru greiðslur af þessum toga ekki dregnar frá skaðabótum en það hefur hins vegar verið gert eftir breytinguna sem gerð var á árinu 1999. Þess vegna hafa slíkar bætur frá þeim tíma verið dregnar frá þessum hópi. Það hefur verið gert skv. 4. mgr. 5. gr. laganna og hefur haft nokkuð alvarlegar afleiðingar í för með sér og er þá m.a. horft til þess að frádrátturinn er að verulegu leyti vegna greiðslna sem alls óvíst er að viðkomandi haldi til framtíðar. Það kemur til af þeirri ástæðu að greiðslurnar eru háðar ýmsum atriðum, m.a. hjúskaparstöðu viðkomandi tjónþola. Eins geta tekjur tjónþola haft áhrif til skerðingar, bæði launatekjur og fjármagnstekjur, eins og segir í greinargerðinni.

Ég held að ágætt sé til frekari skýringar að horfa til dæma sem draga aðeins betur fram en þetta almenna orðalag í greinargerðinni gerir hvernig framkvæmdin kemur út. Eitt dæmi sem lagt hefur verið fyrir allsherjarnefnd og nefndin horfði m.a. til við undirbúning þessa máls var dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 520/2002. Í því tilviki var tjónþoli kona sem starfaði í fiskvinnslu. Hún hafði verið hér á landi í rúma átta mánuði þegar hún missti handlegg í vinnuslysi og hlaut af 70% varanlega örorku. Heildartjón þessa einstaklings var reiknað 11.409.764 kr., eingreiddar bætur voru hins vegar 5.005.022, þ.e. bótakrafa viðkomandi var skert um 6,4 milljónir rétt rúmar vegna ætlaðra framtíðargreiðslna almannatrygginga, sem er 56% skerðing.

Þetta hlýtur að geta talist allveruleg skerðing á skaðabótagreiðslunni og þess vegna vil ég ítreka að tilvikið sem hér er verið að bregðast við á fyrst og fremst við um þá sem eru alvarlega slasaðir. Við þessu er frumvarpinu ætlað að bregðast.

Hinn hópurinn sem ég nefndi í upphafi máls míns eru ekkjur og ekklar. Með breytingunni árið 1999 voru bætur til eftirlifandi maka lækkaðar verulega þannig að nú eru dregnar frá því sem við höfum nefnt í greinargerðinni „ímynduðum“ greiðslum sem hinn látni maki fær ekki, þ.e. ef hinn látni hefði lifað slysið af hefði hann átt rétt á bótum frá almannatryggingum og úr lífeyrissjóði sínum vegna örorkunnar. Þær greiðslur fær hann ekki þar sem hann er fallinn frá, en samkvæmt núgildandi ákvæði 1. mgr. 13. gr. laganna á engu síður að taka tillit til greiðslnanna eins og viðkomandi hefði hlotið 100% örorku og hefði fengið greiðslurnar áður en tjón makans er reiknað út.

Ef við gerum líkt og í fyrra tilvikinu og skoðum þetta í raunhæfu tilviki er hægt að horfa m.a. á dóm Hæstaréttar í máli nr. 283/2003 þar sem tjónþoli missti eiginmann sinn í vinnuslysi. Við uppgjör skaðabóta var byggt á því af hálfu tryggingafélagsins að draga ætti frá þær greiðslur sem hinn látni hefði átt rétt á úr almannatryggingum og lífeyrissjóði, hefði hann lifað við 100% örorku, og greiða tjónþolanum síðan 30% af afganginum. Á þetta hefur Hæstiréttur fallist. Heildartjón í þessu tilviki var reiknað sem 7.052.096 kr. Eingreiddar bætur voru hins vegar 4.091.408 kr. Bótakrafan var skert um rétt tæpar 3 millj. vegna ímyndaðs bótaréttar hins látna úr almannatryggingum sem var í þessu tilviki 41% skerðing.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að frumvarpið byggir á því að það hafi ekki verið raunverulegur tilgangur lagabreytinganna árið 1999 að framkvæmdin yrði þessi, heldur hafi afleiðingarnar verið nokkuð ófyrirséðar. Hvað sem því líður, hvort sem menn gætu komist að því að af lögskýringargögnum væri ekki hægt að komast að þeirri niðurstöðu sem ég minntist á byggir frumvarpið á sanngirnissjónarmiðum. Ég hygg í það minnsta í síðara tilvikinu sem ég hef farið yfir, þ.e. þegar um er að ræða bætur til eftirlifandi maka, hljóti allir sem kynna sér málið að geta verið nefndinni sammála um að framkvæmdin er mjög einkennileg. Að því leytinu til ætti að vera nokkuð ágreiningslaust að fallast á þær breytingar sem verið er að leggja til.

Hins vegar á ég allt eins von á því varðandi hitt atriðið að þar muni koma einhver sjónarmið fram sem nefndin mun þá, eins og ég gat um áður, gefa sér tíma til að fara nánar yfir. En frumvarpinu er teflt fram þegar hillir undir lok þingsins til að freista þess að gera þessar leiðréttingar á skaðabótalögunum.

Ég tek fram að við undirbúning málsins leitaði ég sem formaður nefndarinnar óformlega eftir sjónarmiðum hjá hagsmunaaðilum og varð þess áskynja að það er ýmislegt fleira í skaðabótalögunum sem ýmsir vilja breyta. Það var einhugur um það í allsherjarnefnd að reyna að einangra málið við að gera leiðréttingar, í fyrsta lagi sérstaklega vegna þess að sýn okkar á málið var að framkvæmdin væri á skjön við það sem til stóð árið 1999 og svo hins vegar vegna þess að framkvæmdin er hvað sem því líður bersýnilega ósanngjörn, sérstaklega í tilviki eftirlifandi maka. Þess vegna vil ég ítreka að jafnvel þó að nefndin muni fá til sín hugmyndir um einhverjar frekari breytingar á skaðabótalögunum mun nefndin reyna að halda sig við það upplegg sem hér er á ferðinni, þ.e. að einangra málið við þessi tvö tilvik þar sem heildarendurskoðun á skaðabótalögunum er eitthvað allt annað en málið snýst um, miklu stærra verkefni og flóknara og mjög mikilvægt að á þinginu sé hægt að gera breytingar til leiðréttinga á lögum án þess að viðkomandi lög verði í heild sinni tekin upp til endurskoðunar um leið eða að þeir sem hafa hagsmuni af gildandi lagareglum vilji koma á vagninn sem fer af stað ýmsum öðrum breytingum sem hugsanlega kunna að tefja nauðsynlegar og sanngjarnar leiðréttingar.

Að svo mæltu vil ég segja að ég mundi fagna því ef um málið mundu koma fram sjónarmið í þingsal. Að lokum vil ég ítreka að nefndin ætlar að gefa sér frekari tíma til að skoða málið og ég hef nú þegar haft frumkvæði að því að fá fram sjónarmið frá hagsmunaaðilum í málinu.