131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:43]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frumvarpið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, sem stafar frá allsherjarnefnd sem ég á sæti í og er þar af leiðandi einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Mig langar þó að koma aðeins inn á þau atriði sem hér hafa verið til umfjöllunar.

Ég er þeirrar skoðunar að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, hafi gert skýra grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja að baki þeim breytingum sem frumvarpið mælir fyrir um. Þær breytingar byggja fyrst og fremst á þeim reiknireglum og útreikningsforsendum sem skaðabótalögin, eins og þau eru núna, mæla fyrir um. En dæmin sem nefnd hafa verið byggja á þeim dómafordæmum Hæstaréttar Íslands og þeirri túlkun sem rétturinn hefur lagt í þau tilteknu ákvæði skaðabótalaganna sem leiða til lagabreytingarinnar sem hér er lögð til.

Að mínu mati er um að ræða verulega réttarbót gagnvart tilteknum hópum, þ.e. annars vegar ekkjum og ekklum sem fá bætur vegna missis framfæranda og hins vegar gagnvart fólki sem verður fyrir verulegri örorku vegna tjóns sem það hefur orðið fyrir.

Verði frumvarpið að lögum felur það í sér verulega réttarbót fyrir þá fáu einstaklinga sem fá uppgjör á bótum á grundvelli þessa ákvæðis, en um er að ræða mjög fá mál á ári sem koma til uppgjörs vegna skaðabóta á grundvelli tjóns eins og þess sem hér er til umræðu

Hv. þm. Pétur Blöndal fór almennt yfir sviðið í ræðu sinni og var þar með athyglisverðar hugmyndir varðandi skaðabótaréttinn sem slíkan. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mikilvægt er í þessu sambandi að blanda ekki saman annars vegar miskabótum og hins vegar þeim bótum sem við erum að fjalla um hér, þ.e. bætur fyrir varanlega örorku sem þýðir á almennu máli bætur vegna skerðingar á aflahæfi einstaklinga til framtíðar, skertum möguleikum fólks til að afla sér tekna á grundvelli þeirra líkamlegu og andlegu eiginleika sem það býr yfir.

Hv. þingmaður vék að eingreiðslukerfinu, sem praktíserað hefur verið hér á landi samkvæmt skaðabótalögunum síðan þau voru sett á árinu 1993 og reyndar lengur, og talaði fyrir nýju bótakerfi. Hann talaði um að koma upp sjóði sem annaðist greiðslu örorkubóta til tjónþola sem metnir hafa verið til örorku. Þetta eru að mínu mati athyglisverðar hugmyndir sem rétt er að setjast yfir og skoða í góðu tómi og við gott tækifæri. Hins vegar fælu þær í sér algjöra grundvallarbreytingu á þeim skaðabótarétti sem hefur verið í framkvæmd á Íslandi, og ekki bara á Íslandi heldur á Norðurlöndunum. Íslensku skaðabótalögin og þær réttarreglur sem þar koma fram byggja á dönskum og norrænum skaðabótarétti.

Ég hygg því, þrátt fyrir að hv. þingmaður sé mér eflaust ósammála, að það sé svo að þær útreikningsforsendur og meginreglur sem lúta að bótagreiðslum, bæði vegna miskabóta og bóta vegna varanlegrar örorku, séu til komnar eða teknar upp fyrst og fremst úr dönskum rétti. Þær eru ekki í samræmi við þær hugmyndir sem hv. þingmaður vék að, án þess að ég sé að gera eitthvað lítið úr þeim.

Ég tel að lykilatriðið í þessu máli, og ég hygg að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé sammála mér um það, og markmiðið sem við leggjum upp með í því sé að tryggja það að þegar þeir einstaklingar sem undir þessi ákvæði laganna heyra verða fyrir tjóni, fái þeir greiddar þær örorkubætur sem þeim ber, hvorki meira né minna. Það hefur verið þannig í allri umræðu um skaðabótalögin og þeim deilum sem átt hafa sér stað frá því þau voru sett árið 1993 að menn hafa allt frá upphafi verið að berjast fyrir því að tjónþolar sem verða fyrir örorku fái fullar bætur, hvorki meira né minna.

Ég lít svo á að markmiðið með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar sé að tryggja það að þeir tilteknu tjónþolar sem frumvarpið tekur til fái fullar bætur. Ég er ekki talsmaður þess að menn græði á bótakerfinu. Ég er heldur ekki talsmaður þess að menn fái lægri örorkubætur greiddar frá tryggingafélögum og Tryggingastofnun ríkisins en þeim ber. Hugtakið fullar bætur snýst bara um að uppgjörið sé sanngjarnt og í samræmi við örorkumat og örorku og það skerta aflahæfi sem liggur fyrir vegna slysa.

Ég tel að þau dæmi sem hér hafa verið tíunduð og tekin eru upp úr dómum Hæstaréttar og hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði skýra grein fyrir í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir frumvarpinu sýni svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að bregðast við gagnvart þessum tveimur hópum. Það eru auðvitað sanngirnissjónarmið sem búa þar að baki, sanngirnissjónarmið sem hafa það að markmiði að tryggja tjónþolum fullar bætur eins og ég kom að áðan.

Ég held að allir sem kynna sér málið og skoða þau dæmi sem liggja fyrir og dóma Hæstaréttar, sérstaklega varðandi eftirlifandi maka sem taka bætur vegna fráfalls maka sinna. Það er mjög furðulegt að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu, eða að lögin hafi verið túlkuð á þann veg að skerða beri bætur til eftirlifandi maka á grundvelli reiknireglu sem miðast við þá forsendu að skerðingin sé tilkomin vegna bóta sem hinn látni maki hefði fengið ef hann hefði lifað. Hins vegar er dómapraxís Hæstaréttar Íslands á þá leið að hann hefur komist að niðurstöðu í þessum málum. Það hefur verið látið reyna á þessi álitaatriði oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og dómarinn er náttúrlega bundinn af því að dæma sambærileg mál með sambærilegum hætti þegar myndast hafa fordæmi. Ef dómurinn sveigir út frá þeirri leið sem hann hefur áður verið þá eru grunnreglur réttarríkisins brotnar, það er mikilvægt að eitt gangi yfir alla. Það leiðir til þess að ef menn vilja bregðast við þessum aðstæðum, sem ég tel að séu ósanngjarnar gagnvart tjónþolum, þá er okkur sú ein leið fær að breyta lögunum, breyta reglunum og koma þeim skilaboðum á framfæri gagnvart dómstólunum að þegar sambærileg mál komi til úrlausnar þeirra í framtíðinni verði önnur sjónarmið lögð til grundvallar útreikningi.

Ég tel mikilvægt og rétt að gera þetta með þessum hætti, hver sem túlkun Hæstaréttar Íslands á skaðabótalögum frá árinu 1999 hefur verið.

Að öðru leyti tel ég, eins og ég sagði áðan, herra forseti, að frumvarpið feli í sér mikla réttarbót fyrir þessa tvo hópa sem byggist á sanngirnissjónarmiðum og miðar að því að menn fái fullar bætur, sanngjarnar bætur miðað við þá örorku sem þeir hafa hlotið vegna tjóns eða þeir makar sem látnir eru.