131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:58]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg rétt að Hæstiréttur Íslands átti á grundvelli núgildandi laga að komast að þeirri niðurstöðu að þessar greiðslur ættu að koma til frádráttar til ekkna og ekkla við þær aðstæður þegar tjónþoli deyr af völdum slysa, eins og við höfum farið yfir, en reglan er engu að síður mjög ósanngjörn, svo ekki sé meira sagt, alveg sérstaklega ósanngjörn. Þeir hæstaréttarlögmenn sem unnið hafa í skaðabótamálum samtals í marga áratugi ef ekki öld, áttuðu sig alveg á því að það var á brattann að sækja þegar þeir létu reyna á þessi ákvæði skaðabótalaganna fyrir Hæstarétti.

Hins vegar þegar menn breyttu lögunum árið 1999, þá hygg ég, og lögskýringargögn benda til þess, að það hafi ekki verið vilji þingsins, vilji löggjafans, að setja í skaðabótalög þá reglu sem mælir fyrir um það að ef maki lendir í slysi og deyr af völdum slysfara og greiddar eru bætur vegna missis framfærandans séu þær skertar vegna bóta sem hinn látni hefði fengið ef hann hefði lifað. Það fyrirkomulag er ekki í samræmi við þann vilja sem löggjafinn ætlaðist til að yrði þegar skaðabótalögunum var breytt árið 1999. Það er á þeim grundvelli, hygg ég, sem þessi mál voru rekin fyrir Hæstarétti Íslands á sínum tíma. Hæstiréttur hefur hins vegar ekki talið sig, réttilega, vera í þeirri stöðu að geta dæmt frekar samkvæmt einhverjum óljósum vilja löggjafans í lögskýringargögnunum umfram það sem segir í lagatextanum sjálfum. Af því skýrast væntanlega þessar niðurstöður.