131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:45]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að bændur hafi gert sér grein fyrir því, ég hef margoft rætt um það á fundum með þeim, að breytinga er að vænta. Alþjóðlegir samningar standa yfir á vegum WTO og við erum þátttakendur þar. Ég hef alltaf sagt bændum að þaðan sé breytinga að vænta hvað tolla varðar og þess vegna beinan stuðning við framleiðslu í landinu. Ég ræddi það oft í þinginu, í sjónvarpi og víðar, m.a. á fundum með bændum, við gerð síðasta búvörusamnings að menn þyrftu að hafa það í huga við gerð þess samnings. Ég hafði áhyggjur af skuldsetningu ungu kynslóðarinnar í mjólkurframleiðslunni, kvótaverð væri hátt og menn skuldsettu sig. Ég hef því flutt öll þessi varnaðarorð.

Þessi nýja aðferð, að bóndi telji sig geta staðið utan beingreiðslukerfisins, á auðvitað eftir að sanna sig og við munum fylgjast með rekstri þess bús. Það kostar mikið að stofna kúabú með 100 kúm og það kostar mikið að reisa mjólkurbú eins og þar er gert. Þáttur beingreiðslna hefur verið 47% af grundvallarverði mjólkur, sem er sú hlutdeild sem forsvarsmenn Mjólku telja sig ekki þurfa á að halda miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér.

Ég hef einungis sagt það eitt í fjölmiðlum um þetta mál þegar ég hef verið spurður að ég óski þessu fólki velfarnaðar í störfum sínum og vonist til að þessi leið reynist því vel. En það kemur í ljós á næstu mánuðum og ég er sannfærður um að þetta hefur heilmikla þýðingu þegar menn horfa til framtíðar.