135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hæla hæstv. forseta sem hefur staðið sig með mikilli prýði. Hún gefur hverjum þeim manni orðið sem óskar eftir að tjá sig. (Gripið fram í.) Allir fá að tjá sig samkvæmt þingsköpum, alveg í takt við þingsköpin. Mér finnst því einhvern veginn ekki sanngjarnt að vera að skamma hæstv. forseta sem hefur algjörlega farið að þingsköpum og veitt þeim orðið sem hafa óskað eftir því.

Í annan stað vil ég líka segja að hæstv. forseti lýsti því yfir í morgun að áætlun væri um að klára dagskrána. Því er verið að kalla eftir því að breyta þeirri ákvörðun. Það hefur ekkert komið fram sem rök um að breyta þeirri ákvörðun. Ég hef hlýtt á umræðu bæði í sal og í sjónvarpi og mér finnst margar ræður sem hafa verið fluttar í kvöld alveg til fyrirmyndar. Mér þætti það miður ef við mundum missa af þeim ræðum eða þeim anda sem núna er yfir þingmönnum, að við mundum missa af því (Forseti hringir.) að sjá þá tjá sig í umræðunni (Gripið fram í: Og þjóðin njóti þess með okkur.) (Forseti hringir.) og vil að þjóðin njóti þess með okkur því að það er einmitt núna sem þetta allt saman er í beinni útsendingu. (Forseti hringir.) Hættan er sú ef þetta færi inn í daginn að þá kæmu einhverjir framhaldsþættir (Forseti hringir.) sem mundu koma í veg fyrir að fólk sæi þessar umræður. (Forseti hringir.) Ég hvet því eindregið til þess að umræðunni (Forseti hringir.) verði fram haldið, virðulegi forseti.