138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég man ekki til þess að ég hafi notað orðin að innviðir Alþingis væru fúnir en ég hef … (Gripið fram í.) Nei, nei, ég hef ekki sagt það en ég hef sagt svipað. Ég sagði í gær og baðst afsökunar fyrir mína hönd sem einstaklingur, sem einn þingmaður — ég tala aldrei fyrir flokka, ég tala ekki fyrir aðra þingmenn — að ég hefði skrifað undir nefndarálit sem ég ræddi í ræðu minni rétt áðan, meðvitundarlaus, án umræðu, án þess að gera mér grein fyrir afleiðingunum, á því baðst ég afsökunar í gær. Fleiri mættu skoða það hvort við séum að gera þetta almennt. Ég veit ekki hvort menn kalla þetta að innviðir Alþingis séu fúnir, en ég mundi segja að þetta sé mjög alvarlegt og þetta á við flestöll mál sem snerta Evrópusambandið og samþykktir tilskipana þess. Við treystum því að vitringarnir miklu úti í Evrópu hafi rétt fyrir sér, við treystum því blint þrátt fyrir Icesave-mistökin og allt það.