138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get bara ekki orða bundist áður en ég hef ræðu mína en að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, fyrir frábæra ræðu. Ég er ánægð með að hún er ein af fulltrúum okkar í þingmannanefndinni og ég veit að hún mun leggja mjög gott til í því starfi sem þar mun fara fram.

Frú forseti. Ég er alin upp af móður sem les leikrit. Þegar ég komst á unglingsárin fór hún að gauka þeim að mér og ég las ýmis merkileg verk mér til mikillar ánægju. Þegar ég var komin á fullorðinsár spurði ég hana af hverju hún væri svona hrifin af þessari bókmenntagrein umfram aðrar. Svar hennar var einfalt: Í leikritum fer fram það uppgjör sem við þráum að fari fram í raunveruleikanum en við höfum sjaldnast kjark til að takast á við.

Rannsóknarnefndin sem Alþingi skipaði til að rannsaka aðdraganda og orsök hruns bankanna hefur fært okkur á silfurfati efni í allsherjaruppgjör í íslensku samfélagi. Ég þakka nefndinni fyrir frábæra skýrslu. Umræður um skýrsluna munu halda áfram hér í þingsölum enda er hún efnismikil og mörg brýn mál sem þarf að ræða. Þó að ég hafi langt frá því náð að kynna mér skýrsluna ítarlega sé ég að hún staðfestir að það voru bófar sem stjórnuðu bönkunum og notuðu þá eins og seðlaveskið sitt. Um afglöp þeirra verður fjallað í dómsölum landsins.

Eftirlitsstofnanirnar voru veikar og íslensk stjórnsýsla veikburða. Hæstv. ríkisstjórn hefur þegar lagt til fjöldann allan af tillögum til úrbóta og meiri hluti þeirra er sóttur í smiðju Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands. Alþingi hefur þegar tekist á hendur breytingar á löggjöf þar að lútandi og mun þurfa að fara yfir allar þær fjölmörgu athugasemdir rannsóknarnefndarinnar auk þess sem þingmannanefndin sem á að vinna úr skýrslunni mun koma með tillögur til lagabreytinga. Sú nefnd mun einnig ákvarða hvort ráðherrar eigi að svara fyrir verk sín fyrir landsdómi. Þá er ljóst af skýrslunni að við verðum að fara í stjórnarskrárbreytingar eins fljótt og auðið er og ég hvet þingheim til að afgreiða nú á vordögum lög um stjórnlagaþing svo hægt verði að kjósa til þingsins í september næstkomandi. Breytingar á stjórnarskrá landsins þola ekki bið.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að árétta að ég tel að eigendur og stjórnendur bankanna beri mesta ábyrgð á hruni bankanna og gjaldmiðilsins. En allsherjaruppgjörið mun ekki fara fram nema stjórnmálastéttin horfist í augu við þann stjórnmálakúltúr sem þrífst hér á landi og gaf eigendum og stjórnendum bankanna svigrúm til að haga sér með þeim hætti sem þeir gerðu. Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð á þeirri stjórnmálahefð sem hér ríkir. Hún er dæmigert afsprengi feðraveldisins þar sem deilt er og drottnað, mönnum skipað í fylkingar og pólitísk umræða einkennist af skætingi en ekki skoðanaskiptum um hugmyndafræði og lífssýn. Vinnubrögðin eru í þessum anda. Fámenn klíka leggur línurnar og þjóðkjörnir fulltrúar fylgja vilja klíkunnar og þora yfirleitt ekki að rísa upp gegn valdboðinu en hlýða í von um framgöngu síðar.

Þó að ég felli hér þungan dóm yfir stjórnmálahefð Sjálfstæðisflokksins vil ég minna á að Framsóknarflokkurinn gekkst glaður við þessari hefð. Flokkurinn minn, Samfylkingin, byggir á hugmyndafræði sem er algjörlega andsnúin þessari hugmyndafræði og hefur lagt ríka áherslu á lýðræðisumbætur. Þrátt fyrir það gengumst við undir valdakerfi Sjálfstæðisflokksins og stóðum okkur ágætlega í því, því miður. Meira að segja Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki náð að aðgreina sig frá hefðinni eins og dæmin sanna í yfirstandandi stjórnartíð þeirra.

Frú forseti. Hlutverk okkar alþingismanna í uppgjörinu á vettvangi þingsins er að tryggja úrbætur á löggjöf sem lúta að eftirlitsstofnunum samfélagsins, stjórnsýslunni, dómskerfinu og stjórnskipan. En við höfum líka það hlutverk að fara heim í flokkana okkar og taka þátt í hreinskiptnum umræðum um vinnubrögð okkar, meðferð okkar á valdi, og bera það saman við þá hugmyndafræði sem stefna okkar byggir á. Síðan þurfum við að kynna niðurstöðurnar fyrir almenningi og koma með trúverðugar tillögur um endurbætur og sanna með verkum okkar lýðræðisleg vinnubrögð. Ef við gerum þetta ekki, frú forseti, munu íslenskir stjórnmálamenn ekki endurvinna traust hjá íslenskum almenningi með þeim afleiðingum að hér mun draga úr lýðræði og skapast andrúmsloft sem er kjörlendi fyrir öfgafullar stjórnmálaskoðanir.

Frú forseti. Við samfylkingarfólk munum hefja okkar vegferð í uppgjörinu næstkomandi laugardag á flokksstjórnarfundi. Ég tel mikilvægt að við séum öll tilbúin til að viðurkenna mistök. Það er að sjálfsögðu í andstöðu við stjórnmálakúltúr á Íslandi þar sem veikleikar skulu aldrei viðurkenndir. Við þekkjum afleiðingarnar af því. Nú skulum við hætta því, því að það felst styrkleiki í því að gangast við mistökum því að öðrum kosti verður erfitt að draga lærdóma af þeim. Nú skulum við vera sterk og grípa tækifærið og andrýmið sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur gefið okkur.