138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að upplýsa hæstv. ráðherra um að þetta er ekki alls kostar rétt hjá honum vegna þess að gert var ráð fyrir að fara í þetta forval árið 2009. Ég fól Huldu Gunnlaugsdóttur að leggja þetta mál upp eins og nú er gert. Það voru fjármunir á fjárlögum 2009 og sömuleiðis uppsafnaðar fjárheimildir vegna þess að sú sem stýrði þessu áður, Inga Jóna Þórðardóttir, fór afskaplega vel með þá fjármuni sem þar voru og vann vel. Það voru því til nægir fjármunir til þess að fara í þetta snemma árs 2009 en það var ekki gert fyrr en núna, u.þ.b. ári seinna en lagt var upp með. Menn breyttu algjörlega um kúrs eftir hrunið, eins og ég rakti í ræðu minni, og eru að byggja á því núna. Ekki hefur verið breytt frá því og engir nýir vinklar í málinu hafa komið fram.

Þetta snýst ekki um óþolinmæði, virðulegi forseti, að öðru leyti en því að við þurfum að vinna ötullega að því að keyra íslenskt þjóðfélag fram á við, halda uppi atvinnu, kaupmætti og hagvexti. Ef það er pólitísk samstaða um þetta mál, eins og hæstv. ráðherra talar um, og engu hefur verið breytt frá því ég fór frá þessu máli hefðu menn átt að vinna þetta miklu hraðar. Við gerum ekkert í því núna en ég vil þó biðja hæstv. fjármálaráðherra að vanda til verks í þessum málum eins og öðrum en á sama tíma vinna hlutina hratt og örugglega vegna þess að tafir á þessu máli og öðrum sambærilegum (Forseti hringir.) hafa mjög slæmar afleiðingar. Ég vona að hæstv. ráðherra sé meðvitaður um það og ég treysti því.