141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Því miður var frumvarp sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður, flutti stuttu eftir hrun um flýtimeðferð allra mála sem varða hrunið ekki samþykkt á þinginu. Hér er loksins verið að taka á því í litlum mæli, en það sem ég tel að þetta frumvarp valdi mestu um er að það kemur í veg fyrir smálánastarfsemi sem ég tel vott um að mikið vanti á fjármálalæsi hjá vissum hópum hér á landi. Síðan tekur það á mörgum öðrum atriðum og upplýsir fólk um ýmislegt, en það tekur ekki á neytendavernd á fjármálamarkaði og það tekur ekki á því ef fólk lendir í miklum áföllum vegna ákvarðana, t.d. í fasteignaviðskiptum eða stofnfjárkaupum og hlutabréfakaupum þar sem fólk fær ráðleggingar um eitthvað allt annað en er skynsamlegt.

Í trausti þess að þetta frumvarp valdi ekki of mikilli skriffinnsku, og við vorum upplýst um það í nefndinni að svo yrði ekki, (Forseti hringir.) styð ég þetta mál.