141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hvet virðulegan forseta til að sjá til þess að hér geti hafist umræður um það mál sem menn eru að tala efnislega um úr ræðustól Alþingis. (Gripið fram í.) Við erum að tala um að taka til umræðu þingsályktunartillögu, en fyrst breytingartillögu frá formönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og síðan Guðmundi Steingrímssyni sem var hugsuð sem sáttaleið inn í næsta kjörtímabil og hvernig við getum haldið áfram að vinna með þetta mikilvæga mál.

Ég bendi hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á að þúsundir manna hafa komið að þessu undarlega ferli sem hún kallar svo. Hér hefur verið þjóðfundur, stjórnlagaráð og þjóðaratkvæðagreiðsla með mjög afdrifaríkri niðurstöðu. Við skulum tala af virðingu um þetta mál en reyna að leiða það til lykta (Forseti hringir.) og finna því farveg þannig að það geti klárast þótt það verði á næsta kjörtímabili. (Forseti hringir.)